Gísli Hjálmtýsson prófessor segir að íslensk hugbúnaðarfyrirtæki sem ætli sér að ná langt eigi ekki að sækjast eftir því að fá innlenda viðskiptavini.
Gísli Hjálmtýsson prófessor segir að íslensk hugbúnaðarfyrirtæki sem ætli sér að ná langt eigi ekki að sækjast eftir því að fá innlenda viðskiptavini. — Morgunblaðið/Golli
Mörgum finnst sem lítið hafi orðið úr íslenskum hugbúnaðar- og hátækniiðnaði. Árni Matthíasson ræddi við Gísla Hjálmtýsson, prófessor í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík.
Talsvert hefur verið rætt um stöðu íslensks hugbúnaðariðnaðar undanfarna mánuði, enda þykir mörgum lítið hafa farið fyrir þeim mikla vaxtarbroddi íslensks efnahagslífs sem hugbúnaðar- og hátækniiðnaður átti að verða. Fjölmörg íslensk hátæknifyrirtæki hafa lent í erfiðleikum, mikið verið um samruna fyrirtækja og mörg hafa dregið úr starfsemi sinni, jafnvel hætt sókn inn á erlenda markaði.

Gísli Hjálmtýsson, prófessor í tölvunarfræði og forseti tölvunarfræðideildar Háskólans í Reykjavík, er vel heima í starfsemi íslenskra hátæknifyrirtækja og þekkir einnig vel til mála vestan hafs. Hann segir að erfitt sé að ræða um íslenskan hugbúnaðariðnað eða hátækniiðnað vegna þess að hann sé eiginlega ekki til. "Það þýðir þó ekki að ekki séu til íslensk hátæknifyrirtæki, heldur það að ekki er til blómleg atvinnugrein eða iðnaður sem hægt er að kalla svo," segir Gísli. "Til eru fyrirtæki eins og Marel sem byrjaði sem hátæknifyrirtæki og er nú orðið þroskað alþjóðlegt fyrirtæki, en þegar rætt er um íslenskan hátækniiðnað er þetta eiginlega eina fyrirtækið sem manni dettur í hug og það er ekki nóg til að kalla það hátækniiðnað."

Gísli segir að hér á landi hafi sáralítið verið gert til að ýta undir að hér getið orðið til íslenskur hátækniiðnaður. "Eitt helsta vandamál sem fyrirtæki standa frammi fyrir í dag er að enginn áhættufjárfestir styður við sprotafyrirtæki, þeir peningar eru horfnir og þeir sjóðir sem stunduðu slíkt hafa snúið sér að hefðbundinni fjármögnun og fjárfestingum. Þetta stafar vitanlega að einhverju leyti af því að menn töpuðu miklu fé líkt og víða annars staðar. En víst höfum við gert séríslensk mistök sem má svo aftur rekja til þess að þeir sem störfuðu hjá fjárfestingafyrirtækjum og -sjóðum höfðu margir ekki nægjanlega þekkingu á þeim fyrirtækjum sem fjárfest var í og starfsemi þeirra."

Snýst ekki bara um peninga

Ekki snýst allt þó bara um peninga þegar sprotafyrirtæki er að koma undir sig fótunum að því er Gísli segir heldur er mjög mikilvægt fyrir fyrirtæki sem eru að hasla sér völl á hátæknimarkaði að fjárfestar leggi fyrirtækinu til reynslu og viðskiptatengsl ekki síður en fé, enda hafi þeir jafnan betri þekkingu á því hvernig fyrirtæki þurfa að standa að rekstri og kynningarmálum en tæknimenn sem starfað hafa að því jafnvel árum saman að hanna og/eða forrita einhverja sértæka lausn. "Viðskiptatengslin skipta gríðarlegu máli og líka að í stjórn viðkomandi fyrirtækis komi stjórnarmenn sem haldi mönnum við efnið og komi með grimmar kröfur um árangur. Of mörg íslensk hugbúnaðarfyrirtæki hafa komist upp með það að vera komin í útgáfu fjögur eða fimm af hugbúnaði sínum og samt ekki með nema innan við tíu viðskiptavini. Það er erfitt að sjá hvaða hvati er í því að búa til útgáfu fjögur ef enginn er að nota útgáfu númer þrjú."

Gísli segir að í þeim fyrirtækjum sem hann þekki til erlendis sé mun meiri áhersla lögð á að byggja strax upp viðskiptatengsl og vinna markaðsstarf. "Hér heima er kynningar- og markaðsstarf oft hálfu öðru ári eða meira á eftir útgáfu hugbúnaðar, en til að mynda vestur í Bandaríkjunum eru sprotafyrirtæki oft komin með tugi viðskiptavina áður en fyrsta útgáfan kemur út."

Stefna strax utan

Ólíkt því sem ýmsir hafa haldið fram segir Gísli að fyrirtæki sem ætli að ná langt á hugbúnaðarsviðinu eigi ekki að sækjast eftir því að fá viðskiptavini hér á landi. "Íslensk hugbúnaðarfyrirtæki eiga að byrja strax á því að reyna að ná árangri erlendis. Það er ekkert að því að fá íslenska viðskiptavini, en það eru allt öðru vísi viðskiptavinir en fyrirtækin þurfa. Þau læra ekki að berjast nema þau sæki inn á erlendan markað. Oftar en ekki er það fyrirtækjum til trafala að hafa stóra viðskiptavini hér á landi, því oft ganga þessi íslensku stórfyrirtæki svo hart fram í að keyra niður verðið að sá sem selur hugbúnaðinn fær lítið sem ekkert út úr því til lengri tíma litið og er að auki upptekinn við að þjónusta íslenska viðskiptavini í stað þess að hefja öfluga markaðssókn erlendis. Íslensk hugbúnaðarfyrirtæki eru gjarnan í svo miklu fjársvelti að þau neyðast samt til að taka þessum viðskiptum ef þau bjóðast."

Engin gerjun þekkingar

"Annað vandamál sem kemur til vegna þess að hér er enginn eiginlegur hátækniiðnaður er að þekking sem menn byggja kannski upp á löngum tíma nýtist ekki ef fyrirtækið sem þeir starfa hjá hættir starfsemi, en það að mörg sprotafyrirtæki deyi er vitanlega eðlilegur hluti af nýsköpunarferlinu.

Við getum nefnt sem dæmi fyrirtæki þar sem menn hafa komið sér upp mikilli þekkingu á afmörkuðu sviði farsímatækni, til dæmis staðsetningarbundinni þjónustu, og lenda síðan í því að fyrirtækið sem þeir starfa hjá hættir starfsemi af einhverjum orsökum. Þá er enginn vinnustaður þar sem þeir geta nýtt sér þessa þekkingu, sem hefur yfirleitt verið kostnaðarsamt að afla. Starfsmennirnir með þessa sérþekkingu fá vissulega aðra vinnu, fara í banka eða vinna á tölvudeild stórfyrirtækis eða stofnunar, en þessi dýra þekking glatast, það er engin gerjun þekkingar sem verður í raunverulegum hátækniiðnaði."

Stækka smám saman

Önnur mistök sem íslensk sprotafyrirtæki gera að mati Gísla er að þau ráðast oft á garðinn þar sem hann er hæstur, reyna að ná viðskiptum við sem stærst fyrirtæki, en það eru reginmistök að hans mati. "Það er svo dýrt að eiga viðskipti við stórfyrirtæki og miklu vænlegra að reyna að finna millistór fyrirtæki til að eiga viðskipti við og stækka þannig smám saman, að byggja upp viðskiptasambönd, safna viðskiptavinum og tryggja peningastreymi áður en farið er í stórfyrirtækin."