Hluthafar sem áttu samtals um 20% hlut í Fjárfestingarfélaginu Atorku, og skipuðu jafnframt tvö af fimm stjórnarsætum félagsins, seldu á þriðjudag allt hlutafé sitt í félaginu.
Hluthafar sem áttu samtals um 20% hlut í Fjárfestingarfélaginu Atorku, og skipuðu jafnframt tvö af fimm stjórnarsætum félagsins, seldu á þriðjudag allt hlutafé sitt í félaginu. Út af fyrir sig sætir alltaf tíðindum þegar svo stórir hluthafar, sem tekið hafa þátt í að leiða félag, hverfa frá því, en salan vekur að þessu sinni einnig athygli af annarri ástæðu. Hún er sú, að kaupandi hlutarins er félagið sjálft.

Skráð félög á markaði koma sér gjarnan upp viðskiptavakt með hlutabréf sín til að auka seljanleika þeirra og auðvelda fjárfestum að eiga viðskipti með bréfin. Fjárfestingarfélagið Atorka er einmitt með slíka vakt, en sú vakt er allt annars eðlis en þau viðskipti sem hér eru til umræðu. Samkvæmt samningi við viðskiptavakann þarf hann ekki að leggja tilboð inn í Kauphöllina hafi viðskipti dagsins náð 3 milljónum króna að markaðsverði, en kaupverð 20% hlutarins var um 1,2 milljarðar króna. Þetta er því ekki viðskiptavakt sem stendur almennum hluthöfum til boða heldur sértæk aðgerð til að auðvelda stórum hluthöfum sölu á hlut sínum í félaginu.

Jafnræði milli fjárfesta og hluthafa er afar mikilvægt á hlutabréfamarkaði og í raun grundvöllur þess að almennir fjárfestar treysti sér til að eiga viðskipti með hlutabréf. Jafnræðið er þar með einnig grundvöllur hlutabréfamarkaðarins sjálfs, því að ef almennir fjárfestar óttast að þeir standi verr að vígi en ráðandi hluthafar draga þeir sig út af markaðnum og hann þornar smám saman upp. Í þessu ljósi eru kaup Fjárfestingarfélagsins Atorku á eigin hlutum af stórum hluthöfum og stjórnarmönnum óheppileg.

Eins og fram hefur komið var ekki búið að ganga frá sölu Atorku á 20% hlutnum þegar félagið keypti hlutinn, þó að einnig hafi komið fram að nokkrir fjárfestar hafi sýnt því áhuga að kaupa í félaginu. Þetta þýðir að félagið, og þar með þeir hluthafar sem ekki seldu, eru með kaupunum að taka áhættu. Að vísu getur verið að í ljós komi að gott verð fáist fyrir bréfin og þar með að félagið hagnist á þessum viðskiptum og ekki þarf að draga í efa að þeir sem ákvörðun tóku um kaupin telji að svo sé. Ákvörðun meirihluta stjórnar félagsins að kaupa bréfin kann þannig að verða félaginu til heilla þegar upp er staðið. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að í kaupunum felst ákveðin áhætta og möguleiki á tapi og óheppilegt er að taka þá áhættu við þær kringumstæður sem um ræðir.

En það er líka óheppilegt, án tillits til þess hver niðurstaðan verður, ef viðskipti verða til að rýra traust hluthafa á markaðnum. Þess vegna er ástæða fyrir stjórnendur skráðra félaga að fara varlega í slíkum viðskiptum, jafnvel þótt ekki sé efast um að þau séu gerð í góðri trú.

Innherji@mbl.is