Fyrirferðarmiklir  Þriðjukynslóðarsímarnir eru enn hálfgerðir hlunkar og notendur eru ekki mjög ánægðir með þá. Enginn hefur enn fundið góða lausn á því hvernig stóri skjárinn, sem þykir nauðsynlegur vegna mikillar gagnaflutningsgetu, eigi að geta farið ve
Fyrirferðarmiklir Þriðjukynslóðarsímarnir eru enn hálfgerðir hlunkar og notendur eru ekki mjög ánægðir með þá. Enginn hefur enn fundið góða lausn á því hvernig stóri skjárinn, sem þykir nauðsynlegur vegna mikillar gagnaflutningsgetu, eigi að geta farið ve
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Frumvarp til laga um þriðju kynslóð farsíma verður lagt fyrir Alþingi í marzmánuði. Ólafur Þ. Stephensen komst að því að enn eru byrjunarörðugleikar miklir við innleiðingu þriðju kynslóðarinnar í nágrannalöndunum. Íslenzku símafyrirtækin fara sér því að engu óðslega.
Frumvarp til laga um þriðju kynslóð farsíma verður lagt fram á Alþingi síðar í mánuðinum, að sögn Karls Alvarssonar, lögfræðings í samgönguráðuneytinu. Ísland er talsvert á eftir flestum löndum Vestur-Evrópu með að setja lög um þriðju kynslóðina, en lítill þrýstingur virðist á það frá símafyrirtækjum og viðskiptavinum þeirra að greiða fyrir innleiðingu þessarar tækni.

Týnda kynslóðin?

Raunar hefur gengið miklu hægar að innleiða þriðju kynslóðina í Evrópuríkjum en spáð var og sumir tala því um týndu kynslóðina. Ekkert símafyrirtæki hefur enn komið upp þriðjukynslóðarkerfi, sem virkar hnökralaust. Um 50 símafyrirtæki í Evrópu hafa þó tilkynnt að þau muni hefja þriðjukynslóðarþjónustu á árinu. Þannig tilkynnti sænsk-finnski fjarskiptarisinn Telia-Sonera að hann myndi hefja þriðjukynslóðarþjónustu í Svíþjóð í næstu viku, 10. marz, seinna á árinu í Finnlandi en norskir viðskiptavinir yrðu að bíða u.þ.b. ár enn.

Á 3 GSM World-ráðstefnunni í Cannes í Frakklandi í síðustu viku deildu fulltrúar símafyrirtækja og framleiðendur símtækjanna hart um það hvorum væri um að kenna að hægt gengi að koma þriðju kynslóðinni í gagnið. Arun Sarin, forstjóri Vodafone, sagði að þeir þriðjukynslóðarsímar, sem væru komnir á markaðinn, væru fyrirferðarmiklir, hitnuðu fljótt og rafhlöðurnar entust stutt. Slíkt væri einfaldlega óviðunandi fyrir viðskiptavini símafyrirtækjanna. Sarin spáir því nú að það dragist fram á seinni hluta ársins að þriðja kynslóðin nái flugi í Evrópu.

Jorma Ollila, forstjóri Nokia, sem selur sex af hverjum tíu farsímum í heiminum, svaraði fyrir sig í Cannes og sagði að kerfi símafyrirtækjanna hefðu ekki verið tilbúin þannig að hægt væri að prófa þriðjukynslóðartækin almennilega. Ollila orðaði það svo að fyrirtækið hefði lent í kunnuglegum vanda, sem sneri að því hvort kæmi á undan, hænan eða eggið; þrjú eða fjögur stöðug kerfi væru nauðsynleg til að hægt væri að prófa tækin, en tæknin væri svo flókin að það ferli hefði tekið alltof langan tíma. Hann spáði því hins vegar að nógu mörg og nógu góð tæki yrðu til á seinni helmingi ársins.

Ollila sagðist sömuleiðis sjá fyrir sér að eftir þrjú ár myndu 30% tekna farsímafyrirtækja koma frá gagnaflutningi, í stað 10% árið 2002. Í þriðjukynslóðarkerfum verður margfalt meiri gagnaflutningsgeta en í núverandi GSM-kerfum.

Símafyrirtæki, sem greiddu hátt verð fyrir leyfi til að reka þriðjukynslóðarnet á árunum 1999 og 2000, hafa mestan hvata til að hefja þjónustu sem fyrst til að byrja að ná inn tekjum á móti fjárfestingunni.

Útboð byggt á fegurðarsamkeppni

Frumvarp til laga um þriðju kynslóð farsíma var lagt fyrir Alþingi í fyrra en hlaut ekki afgreiðslu. Í frumvarpinu var gert ráð fyrir að leyfum til að reka þriðjukynslóðarkerfi mætti úthluta með útboði samkvæmt aðferð, sem kennd hefur verið við fegurðarsamkeppni, en þá verða þau fyrirtæki hlutskörpust, sem hyggjast bjóða upp á mesta og hraðasta útbreiðslu farsímanetsins, beztu þjónustu (t.d. gagnaflutningshraða) eftir mannfjölda og svæðum o.s.frv.

Gert var ráð fyrir föstu tíðnigjaldi, 190 milljónum króna, en afslætti af tíðnigjaldinu ef viðkomandi fyrirtæki byði upp á útbreiðslu þjónustu umfram lágmarkskröfur laganna. Tíðnigjaldið átti þó aldrei að verða lægra en 40 milljónir króna.

Í frumvarpinu var gert ráð fyrir að lágmarkskröfur um útbreiðslu væru að þjónusta hvers fyrirtækis næði til 60% íbúa á hverju svæði um sig; höfuðborgarsvæðinu; Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi vestra; Norðurlandi eystra og Austurlandi, Suðurlandi og Suðurnesjum.

Í frumvarpinu voru jafnframt ákvæði um að símafyrirtækin ættu rétt á reikisamningum við fjarskiptafyrirtæki, sem reka GSM-þjónustu, m.ö.o. að notendur þriðjukynslóðarneta fái aðgang að GSM-netum annarra fyrirtækja en þeir eru í viðskiptum við.

Símafyrirtækin reka ekki á eftir

Karl Alvarsson, lögfræðingur í samgönguráðuneytinu, segir að nú sé verið að leggja lokahönd á nýja útgáfu frumvarpsins og hún verði væntanlega lögð fyrir Alþingi síðar í mánuðinum. "Það eru ekki stórvægilegar breytingar, en þó nokkrar frá fyrra frumvarpinu," segir Karl. Hann segir að enn sé gert ráð fyrir útboði byggðu á "fegurðarsamkeppni" fremur en að símafyrirtækin bjóði í leyfin eins og sums staðar erlendis. "Innleiðing þessarar tækni hefur tekið miklu lengri tíma en menn reiknuðu með í Evrópu, þetta var ekki sú spútniktækni sem menn töldu. Í raun er sú þjónusta, sem byrjað er að veita, fyrst og fremst GPRS og EDGE, en þriðja kynslóðin er enn í vöggu."

Karl segir að íslenzku símafyrirtækin reki ekki mikið á eftir því að löggjöfin verði kláruð og ætli að flýta sér hægt í málinu. "Á tímabili var eftirrekstur af hálfu Evrópusambandsins og lá fyrir sérstök ákvörðun, sem rak á eftir okkur líka. Hún var tímabundin, en svo féll hún úr gildi og rekur ekki á eftir lengur. Engu að síður erum við að fara af stað með þetta og klárum málið á næstu dögum," segir Karl.

Mun byggjast upp á löngum tíma

Eva Magnúsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans, segir að fyrirtækið leggi megináherzlu á að fjarskiptafyrirtækjunum verði gert kleift að byggja upp þriðjukynslóðarkerfi í samræmi við raunhæfar viðskiptaáætlanir og væntingar markaðarins. "Það má segja að markaðurinn hafi ekki komið fram með neina kröfu um þriðju kynslóðina ennþá. Það skiptir auðvitað máli í þessu samhengi hver verður endanlega krafan um uppbyggingarhraða kerfisins," segir Eva. "Sérfræðingar okkar telja að í raun muni kerfið byggjast upp á mjög löngum tíma. Við höfum talað um að gefa okkur að kerfið geti þjónað 20% landsmanna í fyrsta áfanga og svo bætist 10% við árlega."

Eva segir að Síminn hafi ekki áhuga á að flýta sér að byggja upp þriðjukynslóðarkerfi. "Það eru aðallega þau lönd, þar sem mikið var borgað fyrir leyfin, sem eru farin að setja upp þriðjukynslóðarkerfi. Fyrirtæki, sem borguðu lítið fyrir leyfin, eru að fara í EDGE-tæknina, sem er ætlað að brúa bilið á milli GSM og þriðju kynslóðarinnar og hefur stundum verið kölluð kynslóð 2," segir Eva. "Síminn íhugar að taka upp EDGE-kerfið í millitíðinni, sem brúar þetta bil. Við getum hins vegar ekkert sagt til um hvenær Síminn hefur rekstur á þriðju kynslóðinni."

Aðspurð hvort Símanum þyki ekki óþægilegt að dragast t.d. aftur úr símafyrirtækjum á Norðurlöndum, segir Eva að fyrirtækið hafi meðvitað beðið átekta og telji sig njóta góðs af því. "Við höfum töluvert notað GPRS-tæknina, sem gefur kost á hraðari gagnaflutningi í GSM, en notkun á henni hefur farið frekar hægt af stað. Við stígum varlega til jarðar í þessu áður en við förum í milljarðafjárfestingu, en fetum okkur örugglega í átt að þriðju kynslóðinni, t.d. með MMS-þjónustunni, sem var sett upp fyrir ári og gerir viðskiptavinum kleift að senda mynd- og hljóðskilaboð. Það er vísir að þriðjukynslóðarþjónustu."

Ekki kallað eftir þjónustu

Eva bendir á að verulegar tafir hafi orðið á þróun þriðjukynslóðarþjónustu hjá stóru símafyrirtækjunum í Evrópu. Þau hafi varið milljarðatugum í fjarskiptaleyfin, en hafi enn ekki náð fjárfestingunni til baka. "Það er lykilatriði í þessu, að markaðurinn kallar enn ekki mikið eftir þjónustunni. Fyrst núna er notendabúnaðurinn til staðar og það er ein ástæðan fyrir því að menn hafa ekki getað nýtt sér kerfin sem skyldi."

Eva segir að það sé lykilatriði að búið sé að ákveða lagaumhverfið áður en símafyrirtækin ráðist í fjárfestingar; hverjar séu lágmarkskröfur um uppbyggingu, hvernig dreifing eftir landshlutum sé skilgreind og ákvæði um áfanga og hraða uppbyggingar kerfisins. "Þetta er líka spurning um reikiaðgang. Reikiaðgangur innan sömu kynslóðar fjarskiptaneta á sér engar fyrirmyndir í Evrópu og við teljum að ef það yrði ofan á, myndi það hafa letjandi áhrif á uppbyggingu kerfanna ef það yrði skylda að veita keppinautunum reikiaðgang. Að okkar mati verða fyrirtækin sjálf að komast að samkomulagi á viðskiptalegum forsendum um reikiaðgang," segir Eva.

Læra af mistökum annarra

Liv Bergþórsdóttir, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs einstaklinga hjá Og Vodafone, segir að fyrirtækið fylgist vel með þróun þriðju kynslóðarinnar og hún hafi séð margt athyglisvert á GSM-sýningunni í Cannes í síðustu viku sem tengist henni.

"Það er hægt að læra margt af þeim mistökum sem hafa átt sér stað erlendis að undanförnu," segir Liv. "Eins og svo oft í þessum geira er farið á markað með vöru sem er ekki tilbúin og sagan endurtekur sig. Þetta gerðist þegar GSM, GPRS og MMS komu á markað, símafyrirtækin kepptust um að vera fyrst á markað með nýja vöru en enduðu á því að tapa trausti neytenda. Samkeppnin verður til þess að þjónustan er boðin almenningi 1-2 árum áður en hún er raunverulega tilbúin og símtækin styðja ekki þjónustuna. Hún er of flókin og hvorki nægilega aðgengileg né áreiðanleg. Enn er það einungis hefðbundin talþjónusta og SMS-þjónusta sem virkar með þeim hætti sem viðskiptavinurinn telur viðunandi; að hún sé einföld í notkun og virki hvar sem er í heiminum."

Liv segir að Og Vodafone geri ekki ráð fyrir að fara í uppbyggingu á þriðjukynslóðarþjónustu á næstunni, a.m.k. ekki næstu 1-2 árin. "Frumvarp vegna þessa hefur ekki enn verið lagt fyrir Alþingi og því er nauðsynlegt að bíða og sjá með hvaða hætti verður staðið að úthlutun leyfa og uppbyggingu hér á landi. Þá er ljóst að þjónustan er alls ekki tilbúin fyrir markaðssetningu. Kerfin eru enn í uppbyggingu og unnið er að þróun símtækja," segir Liv.

Hún segir að hjá Og Vodafone telji þau réttast að fara af stað með þriðjukynslóðarþjónustu þegar hún sé orðin tæknilega betri. "Þetta er ekki spurning um að vera fyrstur heldur að þjónustan virki," segir hún.

olafur@mbl.is