Framtíðarsýn farsímaiðnaðarins um þriðju kynslóðina hefur stundum verið kölluð "hreyfanleg margmiðlun". Í þriðjukynslóðarkerfum verður margfalt meiri gagnaflutningshraði en í núverandi GSM-kerfum.

Framtíðarsýn farsímaiðnaðarins um þriðju kynslóðina hefur stundum verið kölluð "hreyfanleg margmiðlun". Í þriðjukynslóðarkerfum verður margfalt meiri gagnaflutningshraði en í núverandi GSM-kerfum. Það mun gefa kost á að senda hreyfimyndir, kyrrmyndir og hljóð af miklum gæðum á milli síma, hvar sem er í heiminum. Þetta sjá símafyrirtækin fyrir sér að bjóði upp á alls konar afþreyingu, gagnvirka þjónustu og leiki í miklu meira mæli en nú þekkist.

Símafyrirtækin hafa stigið smá skref í átt að þriðju kynslóðinni innan GSM-kerfanna, sem teljast önnur kynslóð farsíma. Fyrst kom GPRS-tæknin, sem gefur farsímanotendum kost á hraðari gagnaflutningi og sítengingu við Netið. Næsta skref, sem sumir hafa kallað kynslóð 2, er EDGE-tæknin, sem getur boðið upp á allt að fertugfaldan gagnaflutningshraða á við venjulegt GSM-net.