UNDIRRITAÐUR hefur verið samningur milli Heklu hf. og Suðurverks hf. um kaup Suðurverks á Caterpillar-vinnuvélum og trukkum vegna framkvæmda við gerð tveggja stíflna við Kárahnjúkavirkjun.
UNDIRRITAÐUR hefur verið samningur milli Heklu hf. og Suðurverks hf. um kaup Suðurverks á Caterpillar-vinnuvélum og trukkum vegna framkvæmda við gerð tveggja stíflna við Kárahnjúkavirkjun. Samningsupphæð er um 350 milljónir króna, sem er einn stærsti samningur sem Hekla hefur gert við íslenskan verktaka á sviði jarðvinnutækja. Tækin verða öll afhent á tímabilinu maí til júní 2004, en um er að ræða 13 Caterpillar-vinnuvélar og trukka. Frá þessu er grein í tilkynningu frá Heklu.

Stíflurnar tvær sem Suðurverk mun byggja, samkvæmt samningi við Landsvirkjun, eru Desjarárstífla, Sauðárdalsstífla.

Ásmundur Jónsson, framkvæmdastjóri vélasviðs Heklu, segir, að að öðrum samningum ólöstuðum sé þetta einn mikilvægasti samningur sem vélasvið Heklu hafi gert við íslenskt verktakafyrirtæki. Samningurinn tryggi stöðu Caterpillar í verklegum framkvæmdum á landinu enn frekar, og einnig þjónustuþátt Heklu við framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun, en ítalska fyrirtækið Impregilo valdi einnig Caterpillar-vélar vegna virkjanaframkvæmdanna.