Gunnar Baldvinsson, höfundur bókarinnar Verðmætasta eignin, sem Íslandsbanki gefur út í dag um eftirlaunasparnað og lífeyrismál.
Gunnar Baldvinsson, höfundur bókarinnar Verðmætasta eignin, sem Íslandsbanki gefur út í dag um eftirlaunasparnað og lífeyrismál.
EFTIRLAUNASJÓÐUR er verðmætasta eign hvers einstaklings. Þannig segir í kynningu á kápu bókar um eftirlaunasparnað og lífeyrismál, sem Íslandsbanki gefur út í dag.
EFTIRLAUNASJÓÐUR er verðmætasta eign hvers einstaklings. Þannig segir í kynningu á kápu bókar um eftirlaunasparnað og lífeyrismál, sem Íslandsbanki gefur út í dag. Markmiðið með bókinni, sem ber heitið Verðmætasta eignin, er að vekja áhuga fólks á lífeyrismálum. Í henni eru upplýsingar um hvaða réttindi eru fólgin í lífeyrissjóðum og bent á leiðir til að byggja upp eftirlaunasparnað með viðbótarsparnaði og fjallað um val persónutryggingar til að tryggja fjárhagslegt öryggi á starfsævinni. Segir á bókarkápu að óskastaðan sé að hver og einn geti ráðið sínum starfslokum og afkomu sinni eftir þau.

Höfundur bókarinanr er Gunnar Baldvinsson, forstöðumaður lífeyris- og fagfjárfestasviðs eignastýringar Íslandsbanka, en hann er jafnframt framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs lækna.

Á erindi á öll heimili

Að sögn Gunnars gerir útgáfa bókarinnar Verðmætasta eignin það mögulegt að hægt sé að vísa á eina samantekt um eftirlaunasparnað og lífeyrismál, en samantekt af þessu tagi hafi ekki verið til hér á landi. "Bókin er hugsuð fyrir einstaklinga og á að mínu mati erindi inn á öll heimili í landinu. Hún er fyrir fólk á öllum aldri og ekki síst ungt fólk."

Gunnar segir að titill bókarinnar sé valinn markvisst og til þess að vekja athygli á því hvað eftirlaunasparnaður og lífeyrismál séu mikilvægur málaflokkur. Ef farið sé yfir eignir fólks þegar kemur að starfslokum, og tekið sé tillit til verðmætis lífeyrisréttinda og það lagt saman við annan eftirlaunasparnað, sé það yfirleitt verðmætasta eign fólks. Þess vegna sé full ástæða til að líta eftir þessum eignum eins og öðrum eignum en ekki láta þær vera afgangsstærð.

Hann segir að tryggingamál séu einnig tengd þessum málum, því með aðild að lífeyrissjóðum njóti fólk ákveðinnar tryggingaverndar. Hún sé mikil en þó ekki næg fyrir flesta. Í bókinni sé fjallað um hvernig hægt sé að byggja upp eignir fyrir eftirlaunaárin en einnig hvernig hægt sé að verja sig fyrir tekjumissi á öðrum æviskeiðum.

"Ég tel að það sé mikil þörf fyrir bók af þessu tagi. Hún er ekki tæmandi upplýsingabanki um þessi mál en komið er inn á flest það sem skiptir máli í þessu sambandi," segir Gunnar.

Bókin Verðmætasta eignin skiptist í sjö kafla auk skráa og viðauka. Í henni er einnig fjöldi mynda og taflna.

Bókin er tæplega 260 blaðsíður að lengd. Hún er í lit og harðspjalda og uppsett og prentuð hjá Odda hf.