Sommelier við Hverfisgötu hefur verið lokaður um hríð.
Sommelier við Hverfisgötu hefur verið lokaður um hríð. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Brotthvarf fyrirtækja úr miðbæ Reykjavíkur, meint hátt innkaupsverð á mat og drykk og mikill fjöldi veitingahúsa eru meðal ástæðna fyrir erfiðleikum sem verið hafa í veitingahúsabransanum. Þóroddur Bjarnason kynnti sér málið.
ERNA Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að starfsumhverfi veitingahúsa sé erfitt og menn þurfi að vera mjög klókir og duglegir til að halda velli í samkeppninni.

"Til að veitingahús haldi velli þarf að vera til staðar mikil fagþekking og mikil rekstrarþekking, auk þess sem menn þurfa að leggja á sig mikla vinnu," segir Erna.

Hún segir að of mörg veitingahús séu til staðar og offramboð veitingahúsa viðhaldist þar sem alltaf séu til aðilar sem tilbúnir séu til þess að taka við þeim húsum sem hætta starfsemi.

Áberandi mörg veitingahús hafa lagt upp laupana á síðustu misserum. Þar má nefna þekkt veitingahús eins og Sommelier, Sticks 'n Sushi, Pasta Basta, Casa Grande, Si Senior og Mets. Þá hafa önnur þekkt veitingahús dregið verulega saman seglin eins og Við tjörnina.

Fyrirtækin farin

Guðvarður Gíslason veitingamaður sem rekur tvö veitingahús í miðborg Reykjavíkur, Apótek og Maru, hefur langa reynslu af veitingahúsarekstri í Reykjavík.

Spurður segir hann að landslagið hafi breyst. "Það hefur orðið gífurleg fjölgun veitingahúsa og meiri samkeppni og svo hefur verið minna að gera frá því í byrjun september og fram til 1. mars en venjan er. Helgar sem eru okkar aðalsölutímabil hafa ekki verið sterkar í vetur og við finnum mjög fyrir því að stór fyrirtæki hafa farið úr miðbænum," sagði Guðvarður.

Í þessu samhengi má nefna fyrirtæki eins og Símann, stóran hluta KB banka, og Eimskipafélagið.

"Svo er varla að við sjáum alþingismann lengur á veitingahúsunum hér, því þeir eru komnir með svo gott mötuneyti í nýja húsinu sínu."

Guðvarður segir að vegna þessara erfiðleika í starfsumhverfinu þurfi veitingahús að herða sultarólina og það hafi hann þurft að gera. Hann segir að þegar illa árar skipti máli hve vel fyrirtækin eru fjárhagslega í stakk búin til að mæta áföllum.

"Í upphafi skyldi endirinn skoða. Oft er það skortur á eigin fé í upphafi rekstrar sem veldur því að veitingahús hætta starfsemi. Það er á brattann að sækja fyrir þá sem vilja byrja með nýjan veitingastað og ég veit að margir eru til sölu í dag. Svo skynja ég það að áhugasamir kaupendur að þessum stöðum halda frekar að sér höndum en hitt."

Guðvarður segist þó vera bjartsýnn. "Ég er bjartsýnn eins og ég hef verið síðan í september. Þetta batnar vonandi með hækkandi sól, fleiri ferðamönnum og vonandi fleiri krónum í vasa almennings. Góðærið á enn eftir að láta sjá sig. "

Engin leyfi eða skattgreiðslur

Erna Hauksdóttir segir að það séu ekki eingöngu veitingahús í höfuðborginni sem eigi við erfiðleika að etja, veitingahús víða um land eigi einnig erfitt vegna samkeppni við félagsheimili og íþróttahús sem reyni að taka til sín mikið af samkomum sem veitingahúsin þurfi á að halda. "Þarna eru jafnvel engin leyfi til staðar og lítið borgað af sköttum og menn komast upp með það. Það er eins konar þegjandi samkomulag um þetta. Þetta gerir veitingahúsum erfitt fyrir."

Erna segir að meðal þess sem þurfi að gera til að laga starfsumhverfi veitingahúsa sé að gera þeim kleift að kaupa inn mat og vín á sambærilegu verði og veitingahús í nágrannalöndunum. Þau búi flest við mun lægra innkaupsverð á mat og víni.