Nú er svo komið að mikil samkeppni er orðin um þorskhausa og reyndar hausa af flestum bolfisktegundum við landið. Verð fyrir söltuð fés, flatta hausa, er hærra en nokkru sinni fyrr og mjög gott verð fæst fyrir þurrkaða hausa í Nígeríu.

Nú er svo komið að mikil samkeppni er orðin um þorskhausa og reyndar hausa af flestum bolfisktegundum við landið. Verð fyrir söltuð fés, flatta hausa, er hærra en nokkru sinni fyrr og mjög gott verð fæst fyrir þurrkaða hausa í Nígeríu. Allir grálúðuhausar af frystitogurum eru nýttir og seldir til Austurlanda fjær fyrir gott verð. Aðrir hausar, einkum þorsk- og ýsuhausar, eru frystir um borð og unnir í landi. Það sem áður fór í sjóinn eða gúanó fyrir lítið sem ekkert malar nú gull fyrir íslenzkan sjávarútveg. Á þessu ári mun útflutningur á fiskhausum, hertum og söltuðum, skila um tveimur milljörðum króna.

Afskurður, sem áður fór í sjóinn af frystitogurum, er hirtur í vaxandi mæli og unninn í landi og afskurður frá fiskvinnslu í landi er einnig frystur eða saltaður, unninn í verðmætari afurðir en marning. Lundir, hold sem verður eftir á fiskhryggjum við flatningu, eru einnig nýttar, oftast í salt. Vinnsla hrogna á vertíðinni vex stöðugt og kemur æ meira af þeim í land. Þau eru flutt utan á ýmsa markaði með góðum árangri. Fjöldi smærri fyrirtækja hefur lífsviðurværi sitt af vinnslu aukaafurða og lifir góðu lífi við hlið risanna sem sinna þessum þætti vinnslu og markaðar í litlum mæli.

Það er athyglisvert að þessari vinnslu skuli stöðugt vaxa fiskur um hrygg, en í raun er skýringin ósköp einföld. Menn sjá sér hag í að nýta þær glufur sem opnast á markaðnum. Það er alveg ljóst að hægt er að selja nánast allar afurðir, en það verður að borga sig. Hugmyndir um að skylda útgerðir frystitogara og jafnvel ísfisktogara til að koma með allt að landi, það er hausa og afskurð, lifur og hrogn, er gjörsamlega út í hött. Það er ekkert að því að fleygja lífrænum "úrgangi" í sjóinn aftur, ef það borgar sig ekki að koma með hann að landi til vinnslu. "Úrgangurinn" nýtist þá einfaldlega sem æti fyrir þær sjávarlífverur, sem eftir eru. Þegar útgerðarmenn og fiskverkendur sjá sér hag í því að koma með margumtalaðan "úrgang" að landi, gera þeir það sér og þjóðfélaginu til hagsbóta. Þannig skapa menn verðmæti og vinnu, gera eins mikið og mögulegt er úr hverjum fiski sem dreginn er úr sjó. Að þvinga útgerðina til að koma með það í land, sem engin spurn er eftir og skapar því enga atvinnu í landi, er fásinna. Látum útgerðina og fiskverkendur um það sjálfa að ákveða hvað borgar sig í þessum efnum og hvað ekki. Þeir hafa sýnt að þeir eru réttu aðilarnir til að meta það.

En enn um Kínverja. Þeir eru ekki af baki dottnir. Árlega flytja þeir inn tugi eða hundruð þúsunda af hausuðum frystum fiski til flökunar og síðan útflutnings á vestræna markaði. Þeir virðast enn ekki búnir að átta sig á því að líklega borgar það sig fyrir þá að kaupa fiskinn með "haus og hala", en það hlýtur að koma að því að þeir átti sig á því að þannig fái þeir enn meira hráefni til að vinna úr til sölu á mörkuðum, sem borga vel. Nú þegar eru þeir orðnir skæðir keppinautar okkur á mörkuðum fyrir saltaðan afskurð. Höldum vöku okkar!

hjgi@mbl.is