Talið er að brottkast á fiski við Noreg geti numið allt að 192.000 tonnum á ári.
Talið er að brottkast á fiski við Noreg geti numið allt að 192.000 tonnum á ári. — Morgunblaðið/RAX
SAMKVÆMT skýrslu sem Norðmenn hafa gert fyrir norræna ráðherraráðið í samvinnu við Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðuþjóðanna, FAO, virðst mikið um brottkast á fiski í Noregi.

SAMKVÆMT skýrslu sem Norðmenn hafa gert fyrir norræna ráðherraráðið í samvinnu við Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðuþjóðanna, FAO, virðst mikið um brottkast á fiski í Noregi. Sjávarútvegsráðherra Noregs hefur því skipað nefnd til að kanna umfang brottkastsins og hvernig koma megi í veg fyrir það, en brottkast á fiski er með öllu bannað við Noreg.

Allt að 192.000 tonnum?

Samkvæmt skýrslunni sem unnin er af Odd Nakken fiskifræðingi og John Willy Valdimarsson frá FAO, er talið að brottkast við Noreg nemi árlega 57.000 til 192.000 tonnum. Farið hefur verið yfir 55 útgerðar- og veiðiflokka og niðurstaðan er sú að í 49 þeirra sé brottkast stundað. Samkvæmt skýrslunni eru einu veiðarnar þar sem brottkast er ekki stundað veiðar í gildrur, handfæraveiðar á makríl og netaveiðar á háfi.

Mest er brottkastið á veiðum í troll og nót. Talið er að brottkast á trollveiðum sé að hámarki 62.000 tonn. Þriðjungur þessa brottkasts eigi sér stað við veiðar á þorski og rækju í Barentshafi. Þá er talið verulegt brottkast á veiðum í flottroll einkum kolmunnaveiðum og síldveiðum á Vesturfirði. Loks er það metið svo að veiðar á rækju í troll í Norðursjó og Skagarak geti leitt til allt að 12.000 tonna brottkasts.

Af einstökum veiðiskap er mest brottkast í veiðum á norsk-íslenzku síldinni í hringnót. Það er talið á bilinu 20.000 til 60.000 tonn. Alls er reiknað með að brottkast úr öllum nótaveiðiskap geti að hámarki verið 108.000 tonn og er langmestu hent úr hringnótinni.

Gert er ráð fyrir að við línuveiðar sé brottkastið allt að 7.600 tonn og er mest um það við Norður-Noreg. Loks er talið að handfærabátar hendi um 1.400 tonnum að hámarki.

Samkvæmt skýrslunni er algengt að brottkast sé 5 til 10% af heildarafla, en í einhverjum tilfellum mun hærra. FAO telur að að meðaltali nemi brottkast í heiminum um 25% af heildarafla.

Hátt verð á stórum fiski

Það er athyglivert að brottkast skuli vera svo mikið í Noregi. Hér við land hefur brottkastið verið tengt kvótakerfinu, en slík veiðistjórnun er ekki við Noreg. Fiskeribladet í Noregi gerir því skóna að skýringin sé afar hátt verð á stórum fiski valdi því að smáfiskurinn komi ekki að landi. Ennfremur er talið að skýringin geti verið sú að kostnaðarsöm kaup á veiðiheimildum valdi því að aðeins verðmætasti fiskurinn komi að landi. Þannig hámarki útgerðarmenn tekjur sínar.

Tölur frá norsku Strandgæzlunni koma illa heim og saman við þetta. Á síðustu fjórum árum hefur hún staðið 66 skip og báta að brottkasti. Þar af voru 11 norskir. Miðað við fjölda þeirra skipa, sem gæzlan hefur haft afskipti af, eða um 10.000 á fjórum árum, er þetta ekki hátt hlutfall, vel undir 1%.