MBA-nemendur við Háskólann í Reykjavík í verkefnavinnu.
MBA-nemendur við Háskólann í Reykjavík í verkefnavinnu. — Ljósmynd/Sigurður Stefán Jónsson
TÆPUR helmingur þeirra MBA-nemenda við Háskólann í Reykjavík sem hófu nám sl. haust er í svokölluðu GEM-samstarfi, þar sem nemendur vinna að verkefnum á milli landa á sérstökum alþjóðlegum námstefnum og í gegnum fjarfundi.
TÆPUR helmingur þeirra MBA-nemenda við Háskólann í Reykjavík sem hófu nám sl. haust er í svokölluðu GEM-samstarfi, þar sem nemendur vinna að verkefnum á milli landa á sérstökum alþjóðlegum námstefnum og í gegnum fjarfundi. MBA-nemendur við Háskólann í Reykjavík sem hófu nám sl. haust eru 50 talsins og gátu þeir valið um þrjár námsleiðir; GEM, fjármál og mannauðsstjórnun.

GEM-námskráin (GEM stendur fyrir Global e-Management) leggur að sögn Þórdísar Sigurðardóttur, forstöðumanns MBA-náms við Háskólann í Reykjavík, áherslu á hið alþjóðlega umhverfi sem fyrirtæki starfa í. Markmiðið er að búa nemendur undir að vinna í alþjóðlegum fyrirtækjum, með ólíku fólki að mismunandi verkefnum og yfir landamæri.

Þórdís segir að GEM-námið hafi algjöra sérstöðu á Íslandi. "Hér á landi er ekkert nám af svipuðum toga þar sem nemendum er boðið að fara út og hitta aðra nemendur í sambærilegu námi og vinna með þeim, bæði á námstefnum og á milli námskeiða. Þá er námskráin að einhverju leyti sameiginleg milli allra skólanna í samstarfinu sem gefur okkur sérstöðu og gefur okkur líka viðmið við það sem er að gerast í bestu viðskiptaháskólunum. GEM er ákveðinn gæðastimpill."

MBA GeM er að sögn Þórdísar samstarf tíu virtra viðskiptaháskóla í Evrópu og Norður-Ameríku. Þrjár alþjóðlegar námstefnur eru hluti af náminu.

Hinn 20. mars nk. hefst fimmti GEM-samstarfshringurinn með námstefnu í Köln í Þýskalandi, og stendur til 27. mars. Í námstefnunni taka þátt auk nemenda frá Háskólanum í Reykjavík nemendur frá Kölnarháskóla, Erasmus-viðskiptaháskólanum í Rotterdam, CBS í Kaupmannahöfn, NHH í Bergen og Monterrey í Monterrey í Mexíkó.