TAP varð af rekstri Sláturfélags Suðurlands svf. á árinu 2003 sem nam 37,5 milljónum króna. Árið áður var 19 milljóna króna hagnaður af rekstrinum.
TAP varð af rekstri Sláturfélags Suðurlands svf. á árinu 2003 sem nam 37,5 milljónum króna. Árið áður var 19 milljóna króna hagnaður af rekstrinum.

Afkoma félagsins er í tilkynningu sögð óviðunandi og einkennist af mikilli verðsamkeppni á kjötmarkaði og offramboði á kjöti á árinu 2003. Reiknað er með að ástandið batni á síðari hluta ársins 2004 og afkoma félagsins í ár verði ívið betri en 2003.

Alls námu rekstrartekjur félagsins 3,5 milljörðum króna á árinu 2003 og minnkuðu um tæp 6% frá fyrra ári. Helstu ástæður þessa eru sagðar fyrrnefnd verðsamkeppni á kjötmarkaði og samdráttur í afurðarekstri félagsins.

Neikvæð arðsemi eigin fjár

Rekstrargjöld voru ríflega 3,4 milljarðar króna og lækkuðu um 5,5% á milli ára. Hagnaður af rekstri var tæpar 55 milljónir, sem er 16% lækkun miðað við rekstrarhagnað ársins 2002. Fjármunaliðir voru neikvæðir um 32,4 milljónir, m.a. vegna niðurfærslu hlutabréfa í eigu félagsins, og hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga var neikvæð um 57,4 milljónir. Hlutdeildarfélögin eru Ferskar kjötvörur, Ísfugl, Hollt og gott, og Guldfoss í Danmörku.

Eignir Sláturfélags Suðurlands voru í árslok metnar á 2,8 milljarða króna, þar af voru fastafjármunir tæpir 1,8 milljarðar. Skuldir voru 1.655 milljónir, þar af voru skammtímaskuldir 750 milljónir. Eigið fé var um áramót 1.190 milljónir króna og eiginfjárhlutfallið reyndist 42%. Arðsemi eigin fjár var neikvæð um 3%.

Veltufé frá rekstri nam 189 milljónum króna á árinu 2003 og handbært fé frá rekstri nam rúmum 197 milljónum.

Laun stjórnenda og launatengd gjöld námu 42,9 milljónum króna á árinu 2003, þar af námu laun og hlunnindi forstjóra tæplega 14 milljónum króna. Þóknun til endurskoðenda nam 3,6 milljónum á árinu.

Tekið er tillit til verðleiðréttinga í ársreikningi Sláturfélagsins en hefði svo ekki verið þá hefði tap ársins orðið 6,8 milljónum meira og eigið fé í árslok hefði verið 65 milljónum króna minna. Samstæðan tekur ekki til Reykjagarðs sem félagið keypti sl. haust þar sem ekki hefur verið gengið frá nauðasamningum og skuldauppgjöri þess félags.