HITI og selta sjávar er vel yfir meðallagi fyrir sunnan og vestan land og yfir meðallagi norðanlands og austan þó hiti hafi lækkað nokkuð frá því sem var veturinn 2003, samkvæmt niðurstöðum vetrarmælinga á ástandi sjávar sem lauk um miðjan mánuðinn.
HITI og selta sjávar er vel yfir meðallagi fyrir sunnan og vestan land og yfir meðallagi norðanlands og austan þó hiti hafi lækkað nokkuð frá því sem var veturinn 2003, samkvæmt niðurstöðum vetrarmælinga á ástandi sjávar sem lauk um miðjan mánuðinn.

Hafrannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson var í sjórannsóknaleiðangri á miðunum umhverfis landið dagana 26. janúar til 16. febrúar 2004. Sjávarhiti og selta fyrir Suður- og Vesturlandi var vel yfir meðaltali áranna 1970-2004 eins og verið hefur frá síðari hluta árs 1997, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Hafrannsóknastofnuninni. Hlýsjórinn að sunnan var þannig með svipuðum styrk og undanfarin misseri. Norður af Vestfjörðum og fyrir Norðurlandi var útbreiðsla hlýsjávar heldur minni en á sama árstíma 2003, en þá var hún með mesta móti. Bæði hiti og selta fyrir Norðurlandi voru áfram vel yfir meðallagi vetrarmælinga. Þetta gefur til kynna að lítið hefur dregið úr flæði hlýsjávar inn á Norðurmið enn sem komið er. Norðaustanlands og austan var hiti á bilinu 2,5-3 °C yfir landgrunninu, sem er í góðu meðallagi á þessum árstíma. Selta sjávar var einnig yfir meðallagi að vetri. Hitastig við botn á landgrunninu umhverfis landið var 4-7 °C fyrir Suður- og Vesturlandi, 0-3 °C fyrir Norðurlandi og 2-3 °C fyrir Austurlandi. Norðan- og norðaustanlands var botnhiti 1-2 °C lægri en að vetri 2003.