HAGNAÐUR Vátryggingafélags Íslands, VÍS, var 1.515 milljónir króna í fyrra, sem er rúmlega tvöföldun frá árinu 2002 þegar hagnaður ársins var 734 milljónir króna.

HAGNAÐUR Vátryggingafélags Íslands, VÍS, var 1.515 milljónir króna í fyrra, sem er rúmlega tvöföldun frá árinu 2002 þegar hagnaður ársins var 734 milljónir króna. Í fréttatilkynningu frá félaginu til Kauphallar Íslands segir að þetta sé besta afkoma fyrirtækisins frá stofnun þess árið 1989. Ástæðan sé annars vegar hagstæð þróun tjóna á árinu og hins vegar veruleg aukning fjárfestingartekna, einkum vegna sölu hlutabréfa.

Vegna afkomunnar í fyrra hefur félagið ákveðið að greiða starfsfólki 145.000 króna kaupauka fyrir fullt starf. Þá hefur stjórnin ákveðið að leggja til við aðalfund að greiddur verði út 550 milljóna króna arður, eða sem nemur 36,3% af hagnaði eftir skatta.

Eigin iðgjöld Vátryggingafélagsins jukust um 3% milli ára og námu tæpum 6,6 milljörðum króna. Við samanburð milli ára verður að hafa í huga að fyrir árið 2003 er um að ræða samstæðuuppgjör en ekki fyrir árið 2002. Þetta stafar af því að félagið jók eignarhlut sinn í Líftryggingafélagi Íslands upp í 75% á árinu og þess vegna eru sumar tölur ekki fyllilega sambærilegar milli ára. Hagnaður af vátryggingarekstri nam tæpum 1,5 milljörðum króna og þar af var hagnaður af lögboðnum ökutækjatryggingum rúmur einn milljarður króna. Þetta er verulegur bati í afkomu af vátryggingastarfseminni, sem skilaði 635 milljóna króna hagnaði árið 2002.

Hærra kostnaðarhlutfall

Fjárfestingartekjur jukust um þriðjung og námu 2,5 milljörðum króna. Í tilkynningu félagsins segir að ávöxtun erlends verðbréfasafns hafi verið viðunandi. Hagnaður af sölu hlutabréfa og annarra eigna hafi numið 778 milljónum króna, en á móti hafi félagið gjaldfært 149 milljónir króna vegna matsbreytinga og taps af fjárfestingum, en þetta sé verulega lægri fjárhæð en árið 2002.

Tjónahlutfall, þ.e. hlutfall eigin tjóna af eigin iðgjöldum, hefur lækkað verulega á síðustu árum. Það var 78,6% í fyrra en 86,3% árið 2002 og yfir 100% næstu ár þar á undan.

Kostnaðarhlutfall, sem er hreinn rekstrarkostnaður í hlutfalli af eigin iðgjöldum, hækkaði hins vegar milli ára úr 22% í 24,5%. Rekstrarkostnaður jókst um 14% milli ára.

Vátryggingaskuld eykst um 8%

Eignir Vátryggingafélagsins jukust um 21% milli ára og námu um áramót 28,9 milljörðum króna. Helstu breytingar eignamegin í efnahagsreikningnum voru þær að hlutabréfaeignin jókst um 60% í 10,8 milljarða króna og skuldabréfaeignin minnkaði um 13% í 4,8 milljarða króna.

Vátryggingaskuld jókst um 8% og nam í árslok 19,3 milljörðum króna. Eiginfjárhlutfall jóks úr 19,1% í 20,6%.

Í tilkynningu Vátryggingafélagsins segir að batnandi afkoma tryggingagreina árið 2003 hafi veitt svigrúm til verulegrar iðgjaldalækkunar, og tekjusamdráttar hennar vegna muni gæta í rekstrarniðurstöðu þessa árs. Félagið leggi eftir sem áður áherslu á að allar megingreinar vátryggingarekstrarins skili hagnaði.

Horfurnar í ár eru sagðar ágætar, en afkoman muni ráðast mikið af þróun tjóna, sem geti sveiflast mikið. Samkeppnin á markaðnum sé hörð sem fyrr og fari harðnandi, en félagið hafi alla burði til að standa vel að vígi í þeirri samkeppni.