STJÓRNARFRUMVARP um nýtt hlutafélagaform, svokölluð Evrópufélög, er nú til meðferðar í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. Viðskiptaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, mælti í nóvember síðastliðnum fyrir frumvarpinu og ætlunin er að lögin taki gildi 8.

STJÓRNARFRUMVARP um nýtt hlutafélagaform, svokölluð Evrópufélög, er nú til meðferðar í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. Viðskiptaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, mælti í nóvember síðastliðnum fyrir frumvarpinu og ætlunin er að lögin taki gildi 8. október næstkomandi, en þá á reglugerð Evrópusambandsins um Evrópufélög að taka gildi á Evrópska efnahagssvæðinu.

Tilgangurinn með þessu nýja félagaformi er að félögum sem starfa í fleiri en einu ríki á Evrópska efnahagssvæðinu gefist kostur á að stofna eitt félag um starfsemi sína og geti þá starfað á grundvelli einna reglna um stjórn og fleira. Í framsögu ráðherra með frumvarpinu kom fram að þetta leiddi til minni stjórnunarkostnaðar og skriffinnsku og yki samkeppnishæfni félaga á efnahagssvæðinu. Til þeirra atriða sem lögin um Evrópufélög nái ekki gildi ákvæði laga um hlutafélög eða eftir atvikum annarra laga þar sem Evrópufélögin séu skráð.

Ekki full samræming

Jan Schans Christensen, prófessor í félagarétti við lagadeild Háskólans í Kaupmannahöfn, hélt í vikunni fyrirlestur í Háskólanum í Reykjavík um hið nýja félagsform. Hann segir að stofnun sérstakra Evrópufélaga hafi verið lengi til umræðu innan Evrópusambandsins og ætlunin hafi verið að hafa sömu reglur í öllum löndum sambandsins. Niðurstaðan hafi þó orðið nokkuð önnur, sérstaklega vegna ólíkra viðhorfa og laga í aðildarríkjunum til þátttöku starfsmanna í stjórnum hlutafélaga, en einnig vegna ólíkra viðhorfa til yfirstjórnar félaga. Í sumum ríkjum, til að mynda Þýskalandi, séu starfsmenn í stjórnum félaga, en í öðrum löndum, svo sem Bretlandi, tíðkist það ekki. Og í sumum ríkjum sé yfirstjórn tvískipt í stjórn og framkvæmdastjórn, en annars staðar sé ein stjórn sem sameini hlutverk beggja.

Félagsmálaráðherra, Árni Magnússon, lagði í desember síðastliðnum fram frumvarp sem snýr að aðild starfsmanna að Evrópufélögum. Í framsögu hans kom fram að með frumvarpinu sé ætlunin að vernda rétt starfsmanna Evrópufélaga til aildar að málum og ákvörðunum sem varða starfsemi félagsins sem þeir vinna hjá. Einnig eigi að tryggja að gildandi reglur um aðild starfsmanna hvorki hverfi né minnki að vægi við stofnun Evrópufélagsins.

Aukinn sveigjanleiki

Reglurnar um Evrópufélög, eins og þær hafa verið samþykktar, fela að sögn Christensen í sér að félögin muni hafa ákveðna sameiginlega eiginleika, en muni jafnframt taka mið af viðhorfum í löndunum þar sem höfuðstöðvar þeirra séu.

Christensen segir að margs konar gagn megi hafa af Evrópufélögunum og að þau muni auka möguleika evrópskra fyrirtækja til að starfa milli landa og þannig náist fram meiri sveigjanleiki og hagkvæmni í hagkerfinu. Einn helsti kosturinn við nýju reglurnar sé að hægt verði að sameina félög milli landa, sem sé nýtt. Hingað til hafi það verið þannig að ætli fyrirtæki á Íslandi og í Þýskalandi, svo dæmi sé tekið, að sameinast, þá þurfi að leysa upp fyrirtækið í öðru landinu. Með nýju reglunum verði boðið upp á raunverulegan samruna milli landa og það sé stórt skref sem fyrirtæki í Evrópu hafi lagt ríka áherslu á.

Annað nýmæli sé að með nýju reglunum verði vandræðalaust hægt að flytja höfuðstöðvar fyrirtækis, sem starfi í mörgum löndum, á milli landa. Hingað til hafi þessu fylgt mikil fyrirhöfn og kostnaður, þar sem nauðsynlegt hafi verið að stofna fyrirtækið frá grunni á nýja staðnum.

Christensen segir að þar sem skattamál hafi ekki verið samræmd innan ESB muni skattamál þessara félaga fara eftir skattareglum þeirra ríkja þar sem þau séu með höfuðstöðvar. Yfirleitt muni það fela í sér að þau greiði skatta til viðkomandi ríkja.