HAGNAÐUR Samskipa var 366 milljónir króna á síðasta ári eftir skatta. Árið áður var hagnaður félagsins 124 milljónir. Í tilkynningu frá Samskipum segir að unnið sé að kaupum á flutningafyrirtæki í Moskvu og opnun skrifstofu við Kaspíahaf.
HAGNAÐUR Samskipa var 366 milljónir króna á síðasta ári eftir skatta. Árið áður var hagnaður félagsins 124 milljónir. Í tilkynningu frá Samskipum segir að unnið sé að kaupum á flutningafyrirtæki í Moskvu og opnun skrifstofu við Kaspíahaf.

Heildartekjur Samskipa á liðnu ári námu 17,3 milljörðum króna og hækkuðu um 3,2 milljarða frá árinu áður. Tæplega helmingur teknanna kemur frá erlendri starfsemi félagsins.

Eignir Samskipa námu 7,6 milljörðum króna á síðustu áramótum samanborið við 6,8 milljarða árið áður. Eigið fé var 2.256 milljónir, hækkaði um 166 milljónir milli ára.

Gott rekstrarár

Í tilkynningu Samskipa segir að árið 2003 hafi verið gott í rekstri félagsins og umtalsverður bati hafi verið á nær öllum sviðum starfseminnar. Uppsveifla hafi verið í innflutningi til Íslands og Samskip hafi haldið vel sínum hlut í samkeppninni.

"Framundan er áframhaldandi útrás og vöxtur félagsins, nú er unnið að kaupum á flutningafyrirtæki í Moskvu sem og opnun á skrifstofu í Astrakhan í Rússlandi, til að styrkja stöðu félagsins enn frekar á Kaspíahafssvæðinu," segir í tilkynningunni.

Samskip voru með 16 skip í reglubundnum áætlunarsiglingum um síðastliðin áramót, auk leiguskipa í tímabundnum verkefnum. Félagið hefur vaxið stöðugt frá stofnun árið 1990 og starfrækir það nú 31 skrifstofu í 14 löndum.

Hluthafar Samskipa eru nú 390 að tölu. Áttu þrír hluthafar yfir 10% af útgefnu hlutafé í lok síðasta árs. Þeir eru Ker hf. (49,15%), Mastur hf. (10,8%) og Olíuverslun Íslands hf. (10,32%).

Aðalfundur Samskipa verður haldinn í dag.