[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
NEFND á vegum viðskiptaráðuneytisins vinnur nú að undirbúningi lagafrumvarps um yfirtökur fyrirtækja á hlutabréfamarkaði.
NEFND á vegum viðskiptaráðuneytisins vinnur nú að undirbúningi lagafrumvarps um yfirtökur fyrirtækja á hlutabréfamarkaði. Gert er ráð fyrir að frumvarpið verði lagt fyrir á haustþingi en það er eitt fimm frumvarpa um verðbréfamarkaðinn sem lögð verða fram á næstu tveimur árum til innleiðingar á tilskipunum Evrópusambandsins.

Benedikt Árnason, skrifstofustjóri fjármálamarkaðar hjá viðskiptaráðuneytinu, segir frumvörpin fimm verða unnin samkvæmt tilskipunum Evrópusambandsins um yfirtökur, markaðsmisnotkun, útboðslýsingar, upplýsingagjöf til Kauphallar og fjárfestingaþjónustu.

"Þetta mun leiða til meiri breytinga á regluverki um íslenskan verðbréfamarkað en við höfum séð síðan EES-samningurinn var gerður," segir Benedikt. "Stefna Evrópusambandsins er að verðbréfamarkaðurinn verði einsleitur og sett verði nákvæmari ákvæði um hann en nokkurn tíma áður sem leiðir til meiri samræmingar."

Að sögn Benedikts þýðir þetta að minna svigrúm verði fyrir séríslenskar reglur. "Það sem komið hefur í veg fyrir, að mati Evrópusambandsins, að skilvirkur innri markaður hafi komist á, er að þær tilskipanir sem hingað til hafa verið settar hafa verið svokallaðar lágmarkstilskipanir. Í þeim felst ákveðin vernd en síðan hefur aðildarríkjunum verið gefið færi á að útfæra einstök ákvæði nánar.

Nú er Evrópusambandið að setja nánari reglur þannig að reikna má með því að, að tveimur árum liðnum, verði ákvæði sem gilda á öllum innri markaðnum um verðbréfaviðskipti mun samræmdari. Þannig munu sambærileg ákvæði gilda um innherjaviðskipti, um hvað skuli koma fram í útboðslýsingu og svo framvegis," segir Benedikt.

Skoða áhrif á íslenskan markað

Nefnd á vegum viðskiptaráðuneytis, Kauphallarnefnd, hefur það hlutverk með höndum að hafa yfirsýn yfir innleiðingu fyrrnefndra tilskipana Evrópusambandsins um verðbréfamarkaðinn. Sérstakar nefndir hafa síðan verið skipaðar um innleiðingu einstakra tilskipana með þátttöku ráðuneytisins, eftirlitsaðila og fjármálamarkaðarins, þ.á.m. er nefnd um yfirtökur.

Benedikt segir að yfirtökunefndin sé nú að fá úttekt á því hvaða áhrif hugmyndir nefndarinnar muni koma til með að hafa á hérlendan markað. "Hugmyndir nefndarinnar varða tengsl milli yfirtökuaðila, hvaða verð sé eðlilegt að bjóða í yfirtökutilboði og hvort æskilegt væri að lækka það hlutfall sem leiðir til tilboðsskyldu og er nú 40%."

Þessu til viðbótar hefur nefndin það hlutverk að innleiða nýja tilskipun Evrópusambandsins um yfirtökur sem verður birt í stjórnartíðindum Evrópusambandsins á næstu vikum. Meðal þess sem kveðið er á um í tilskipuninni er það hvenær fyrirtæki eigi í samstarfi um yfirtöku eða það sem kallast "acting in concert", að sögn Benedikts.

Skýrsla um stjórnarhætti fyrirtækja

Þess má geta að í lok janúar skipaði viðskiptaráðherra einnig nefnd um stefnumótun íslensks viðskiptalífs. Nefndin tekur fyrir hvernig bregðast megi við samþjöppun í atvinnulífinu en einnig er það hlutverk hennar að skoða stjórnarhætti fyrirtækja og minnihlutavernd hluthafa í hlutafélögum. Nefndinni er ætlað að skila heildstæðum tillögum um bætt umhverfi íslensks viðskiptalífs í byrjun september. Þá mun viðskiptaráðherra á næstu vikum leggja fram á Alþingi skýrslu um stjórnarhætti fyrirtækja, þar sem meðal annars eru tillögur um aukna minnihlutavernd.