Anna Yakova skoraði 10 mörk fyrir ÍBV í gærkvöld.
Anna Yakova skoraði 10 mörk fyrir ÍBV í gærkvöld. — Morgunblaðið/Þorkell
ÍSLANDS- og bikarmeistarar ÍBV eiga deildarmeistaratitilinn næsta vísan eftir sigur á Haukum í æðisgengnum markaleik á Ásvöllum í gær. Í 73 marka leik fagnaði ÍBV sigri, 39:34, og lék því nánast sama leikinn og í Laugardalshöllinni um síðustu helgi en þar lagði ÍBV Hauka, 35:32, í úrslitaleik bikarkeppninnar.
Eyjakonur náðu með sigrinum fimm stiga forskoti á Hauka og Val og eiga að auki þrjá leiki svo ansi mikið þarf að ganga á ef deildarmeistaratitilinn á að ganga leikmönnum ÍBV úr greipum. Eins og úrslitin gefa til kynna var fátt um farnir á Ásvöllum í gær. Sóknarleikurinn var í hávegum hafður, hraðinn mikill og engu líkara en maður væri að fylgjast með borðtennisleik. ÍBV hafði undirtökin allan tímann og þó svo að Haukarnir hafi af og til náð að narta í hæla Eyjakvenna og minnkað muninn niður í eitt mark þá hafði maður alltaf á tilfinningunni að sigurinn myndi falla ÍBV í skaut. Meistararnir bættu einfaldlega í þegar Haukar komust nærri og undir lokin var aðeins spurning hvort ÍBV næði að rjúfa 40 marka muninn.

"Við erum orðin vön að skora 34-35 mörk í leik og það er markaskor sem við viljum hafa. Ég var óánægður með varnarleikinn að vanda og hann þurfum við að bæta. Það var svolítið erfitt að koma stemningu í liðið svona stuttu eftir bikarleikinn og leikurinn bar þess merki að stutt var liðið frá því að liðin áttust við í Höllinni í allt annarri umgjörð en hérna," sagði Aðalsteinn Eyjólfsson, þjálfari ÍBV.

Ramune Pekarskyte var eins og oftast áður yfirburðamaður í liði Hauka. Litháíska stórskyttan skoraði 17 mörk úr 23 skotum og var allt í öllu. Erna Þráinsdóttir átti góðan leik í horninu en það munaði talsverðu fyrir Hauka að fyrirliðinn Ragnhildur Guðmundsdóttir, sem átti stórleik í bikarúrslitaleiknum, náði sér ekki á strik.

Anna Yakova var fremst á meðal jafningja í öflugri liðsheild ÍBV. Sylvia Strass og Birgit Engl áttu fínan leik en Alla Gorkorian virkaði hálflúin og varla búin að ná sér eftir bikarslaginn.

Guðmundur Hilmarsson skrifar