— Morgunblaðið/Jim Smart
BÍLASTÆÐASJÓÐUR áformar að opna fyrir gsm-greiðslumiðlunarkerfi við bílastæði borgarinnar í byrjun sumars þar sem ökumenn geta valið um að greiða fyrir þjónustuna með gsm-síma.
BÍLASTÆÐASJÓÐUR áformar að opna fyrir gsm-greiðslumiðlunarkerfi við bílastæði borgarinnar í byrjun sumars þar sem ökumenn geta valið um að greiða fyrir þjónustuna með gsm-síma. Hafa fulltrúar úr samgöngunefnd og framkvæmdastjóri Bílastæðasjóðs kynnt sér notkun og þróun á slíkri þjónustu erlendis, m.a. á Norðurlöndunum, þar sem hún hefur víða gefist vel.

Að sögn Stefáns Haraldssonar, framkvæmdastjóra Bílastæðasjóðs, verður leitað til einkaaðila um reksturinn og hafa símafyrirtæki, hugbúnaðarfyrirtæki og erlendir aðilar sem reka slík kerfi þegar sýnt áhuga. Mun þjónustan ná til allra gjaldskyldra bílastæða á vegum borgarinnar, að undanskildum bílastæðahúsunum. Að sögn Stefáns verður áfram hægt að greiða með peningum í gjaldmæla og er fyrst og fremst um að ræða viðbótarþjónustu fyrir ökumenn.

Fá viðvörun með sms-skilaboðum

Þjónustan gerir ökumanni kleift að greiða fyrir bílastæði með gsm á þann hátt að upphaf og endir stöðutímans sem hann velur er skráð í hugbúnaðarkerfi sem jafnframt reiknar tilheyrandi gjald út frá tímagjaldi viðkomandi gjaldsvæðis.

Eftirlit fer þannig fram að stöðuvörður getur kannað stöðuna á grundvelli skráningarnúmers bíls sem auðkenndur verður með litlu merki rekstraraðila þjónustunnar, t.d. í bílrúðu.

Miðað er við að þeir ökumenn sem nýti sér þjónustuna geri samning við aðilann sem rekur hana um nánari tilhögun, verð, greiðslufyrirkomulag, o.fl. Rekstraraðili innheimtir tímagjald Bílastæðasjóðs sem rennur óskert til sjóðsins auk þess að innheimta kostnað vegna þjónustunnar hjá viðskiptavinum sínum.

Búið er að afnema ákvæði um hámarkstíma sem hægt er að greiða fyrir í stöðumæli í Reykjavík og með aðstoð gsm-símans verður því hægt að framlengja tímann ef svo ber undir, eins þótt ökumaður sé staddur víðsfjarri. Víða erlendis fá ökumenn senda áminningu í sms skömmu áður en tíminn rennur út.

Að sögn Stefáns er ávinningurinn af gsm-greiðslukerfinu sá að notendur þjónustunnar bera allan kostnað auk þess sem frjáls samkeppni verður milli ólíkra rekstraraðila á markaði sem tryggi bestu lausnirnar á hagstæðasta verðinu.