Lyfjaskammtar fyrir sjúklinga.
Lyfjaskammtar fyrir sjúklinga. — Morgunblaðið/Sverrir
EKKERT hefur þokast í samkomulagsátt milli Heilsugæslunnar í Reykjavík og fyrrverandi starfsfólks heimahjúkrunar. Mikið álag er á því starfsfólki sem eftir er en 37 starfsmenn hættu störfum á mánudag.
EKKERT hefur þokast í samkomulagsátt milli Heilsugæslunnar í Reykjavík og fyrrverandi starfsfólks heimahjúkrunar. Mikið álag er á því starfsfólki sem eftir er en 37 starfsmenn hættu störfum á mánudag. Þrír sjúkraliðar hafa sótt um starf við heimahjúkrun, að sögn Þórunnar Ólafsdóttur hjúkrunarforstjóra. Gert er ráð fyrir að gengið verði frá ráðningum þeirra á næstu dögum.

Nokkrir skjólstæðingar heimahjúkrunar í Reykjavík hafa kvartað til landlæknis yfir því að fá ekki þá þjónustu sem þeim ber. Matthías Halldórsson aðstoðarlandlæknir segir að fólk hafi haft samband við embættið með því að senda tölvupóst eða hringja og sé því bent á að beina kvörtunum sínum fyrst til stjórnenda Heilsugæslunnar í Reykjavík í samræmi við lög um réttindi sjúklinga. Hann segir embættið ekki vita til þess að skjólstæðingar líði alvarlega fyrir deiluna en segir að fylgst verði með því.

Þungt hljóð í starfsfólki

Guðmundur Einarsson, forstjóri Heilsugæslunnar í Reykjavík, sagði í fréttum Útvarps í gær að þess væru dæmi að starfsfólk heimahjúkrunar færi í vitjanir án þess að skjólstæðingarnir sem vitjað væri hefðu þörf fyrir það. Í samtali við Morgunblaðið sagðist Guðmundur hafa með þessum ummælum viljað vekja athygli á því að núverandi akstursfyrirkomulag hvetji til aukinna afkasta, en ekki endilega til aukinnar þjónustu. Þá segir hann að ekki megi gleymast að verið sé að fara með skattfé og því beri að nýta fjárveitingar til starfseminnar vel.

Að sögn Huldu Gísladóttur, hjúkrunarfræðings sem starfar hjá heimahjúkrun, er þungt hljóð í starfsfólki og hún segir það ansi þreytt á ummælum þar sem vegið er að starfsheiðri þess. Hún hafnar algjörlega ummælum forstjóra heilsugæslunnar þess efnis að starfsfólk fari í óþarfar vitjanir til að auka akstursgreiðslur sínar. "Mér finnst ekki verjandi hvernig er vegið að okkur. Það er látið líta út eins og við séum í einhverju kapphlaupi um bílapeninga sem er út í hött," segir Hulda. Hún segir hverfisstjóra skipuleggja svokölluð vinnukort og starfsfólk fara í vitjanir eftir því sem kortin segja til um hverju sinni.

Stjórn Félags íslenskra heimilislækna sendi frá sér ályktun í gær þar sem lýst er áhyggjum vegna deilunnar. "Ástandið bitnar augljóslega á sjúklingum heimahjúkrunar sem munu ekki fá þjónustu eins og áður fyrir utan að lifa í óvissu um nauðsynlega umönnun. Hjúkrun í heimahúsum er þjónusta sem oft skapar möguleika fyrir fólk að útskrifast fyrr af sjúkrastofnunum og dvelja lengur heima en ella með tilheyrandi sparnaði á sjúkrastofnunum," segir í ályktuninni. Málsaðilar eru hvattir til að leysa deiluna hið fyrsta með þarfir skjólstæðinga heimahjúkrunar í huga.

Tilefnislaus árás á starfsfólk og skjólstæðinga

Ólafur F. Magnússon, heimilislæknir og borgarfulltrúi, hyggst taka málefni heimhjúkrunar upp utan dagskrár í borgarstjórn í dag. Ólafur segir kjaraskerðingu vegna breytinga á aksturssamningum í raun vera tilefnislausa árás á starfsfólk heimahjúkrunar og skjólstæðinga þess. "Eftir því sem ég best veit þá er þetta fólk síst of vel haldið af sínum launum og er að vinna verðmæt störf. Ég held að ríkisstjórnin ætti að höggva í einhvern annan knérunn."

Að mati Ólafs má rekja þann vanda sem nú er kominn upp í heimahjúkrun til þess hve ákvarðanir eru teknar fjarri vettvangi eftir að heilsugæslan var færð frá sveitarfélögum til ríkis 1990. Ólafur sat í stjórn Heilsugæslunnar í Reykjavík í tólf ár, frá 1990 til 2002. Hann telur að ekki megi skella skuldinni alfarið á stjórnendur heilsugæslunnar því þeir starfi samkvæmt valdboði að ofan, þ.e. frá heilbrigðisráðuneytinu.

Akstursgreiðslur ekki skattfrjálsar

Í umfjöllun sem birtist í Morgunblaðinu í gær um málefni heimahjúkrunar var ranglega sagt frá því að akstursgreiðslur starfsfólks væru skattfrjálsar. Hið rétta er að starfsfólk heimahjúkrunar greiðir ekki staðgreiðsluskatt af aksturspeningum. Hins vegar eru akstursgreiðslur taldar fram og skattur greiddur af hluta þeirra eftir á, þegar búið er að taka saman kostnað vegna reksturs á bíl sem kemur á móti.