Mikið gengur á þegar Hattur (Pétur Eggerz) berst við Siggu í gervi ljóns (Alda Arnardóttir).
Mikið gengur á þegar Hattur (Pétur Eggerz) berst við Siggu í gervi ljóns (Alda Arnardóttir). — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Grallararnir góðkunnu Hattur og Fattur mæta til leiks í splunkunýju og sprellfjörugu verki eftir Ólaf Hauk Símonarson sem nefnist Hattur og Fattur og Sigga sjoppuræningi og frumsýnt er í Möguleikhúsinu í dag kl. 17.
Grallararnir góðkunnu Hattur og Fattur mæta til leiks í splunkunýju og sprellfjörugu verki eftir Ólaf Hauk Símonarson sem nefnist Hattur og Fattur og Sigga sjoppuræningi og frumsýnt er í Möguleikhúsinu í dag kl. 17. Þeir Hattur og Fattur hafa í áranna rás verið afar vinsælir og birst í ýmsum útgáfum, bæði í sjónvarpi og bókum, á plötu og leiksviði, en fyrir fimm árum skemmtu þeir börnum í Loftkastalanum.

"Verkið sem við frumsýnum í dag er alveg nýtt enda vildum við ekki bara dusta rykið af einhverju gömlu efni. Okkur fannst meira spennandi að fást við nýtt leikrit og nýja söngva," segir Pétur Eggerz sem leikur Hatt. Að sögn Bjarna Ingvarssonar leikstjóra fannst þeim Möguleikhúsmönnum kominn tími til að setja upp verk um persónur sem flestallir þekkja. "Það er nefnilega skemmtilega öðruvísi að setja upp leiksýningar með þekktum persónum," segir Bjarni og bendir á að Möguleikhúsið hafi þónokkra reynslu á því sviði.

Sýningin um Hatt og Fatt er krydduð nýjum söngvum úr smiðju Ólafs Hauks. "Það lá auðvitað beint við að hafa ný sönglög vegna þess að Ólafur Haukur semur svo einstaklega skemmtileg lög, auk þess sem lögin bæta svo miklu við," segir Pétur. "Ólafur kann líka þá list að semja leikrit og skeyta lögum inn í textann þannig að lögin verði hluti af leikritinu," bætir Bjarni við. "Það hefði einfaldlega verið synd að setja upp barnaleikrit eftir hann án sönglaga, auk þess sem Hattur og Fattur eru náttúrlega þekktir fyrir að syngja," segir Pétur.

Spurðir hvort ekki megi búast við því að leikhúsgestir hafi einhverjar fyrirfram mótaðar hugmyndir um þessa þekktu félaga svara Bjarni og Pétur því neitandi. "Þeir Hattur og Fattur hafa í raun aldrei verið skilgreindir útlitslegr, líkt og persónur á borð við Línu Langsokk eða Einar Áskel," segir Pétur. "Enda lögðum við Helga Rún búningahönnuður mikla vinnu í það, ásamt Ólafi Hauki, að finna þeim rétt útlit sem orðið gæti klassískt," segir Bjarni.

Hvað innræti Hatts og Fatts varðar segir Bjarni alls ekki auðvelt að segja til um hvers konar persónur þetta eru, "því þeir eru svo mikil ólíkindatól." Pétur tekur undir með Bjarna. "Í grunninn eru þeir miklir trúðar. Enginn veit hvaðan þeir koma eða hvert þeir eru að fara. Þeir setja spurningarmerki við allt sem okkur finnst sjálfsagt og bregðast ekki við hlutum á hefðbundinn hátt," segir Pétur.

Góðlátlegt grín gert að nammiáti og gosdrykkju

Í þessu nýjasta verki um Hatt og Fatt greinir frá því er Hattur og Fattur hitta Siggu sjoppuræningja sem er forfallinn sælgætisgrís. Hún er á sífelldum flótta undan lögreglunni sökum þess að hún er alltaf að brjótast inn í sjoppu til að ná sér í gos og nammi. Í samskiptum sínum við Hatt og Fatt lærir hún að það getur haft alvarlegar afleiðingar að borða svona mikið nammi. Að sögn Bjarna ætti efni verksins að höfða sterkt til barna enda um ágætis áróður gegn sælgætisáti og gosdrykkju að ræða. "Þetta er samt góðlátlegt grín og þessi áróður er settur fram á farsakenndan hátt," segir Pétur. "Já, ádeilan er svona meira undirliggjandi," bætir Bjarni við. Að sögn Péturs hafa krakkar sem séð hafa sýninguna á æfingum í kjölfarið farið að velta fyrir sér hvort og hversu mikill sykur sé í hinum ýmsu matvælum. "Það er auðvitað bara af hinu góða ef krakkar fara að velta þessu fyrir sér, því það er verið að ota hreint ótrúlega miklu magni af sykri að krökkum nú til dags," segir Pétur. "Það er alltaf gott þegar börn er vakin til umhugsunar um mikilvæga hluti og jákvætt að þau finni hjá sér þörf til að spyrjast fyrir og leita sér upplýsinga," segir Bjarni og tekur fram að þó að leikritið hafi fræðslugildi sé því fyrst og fremst ætlað að hafa skemmtanagildi.

Líkt og aðrar sýningar Möguleikhússins er Hattur og Fattur og Sigga sjoppuræningi ferðavæn sýning. Að sögn Bjarna hafa grunnskólar þegar sett sig í samband við Möguleikhúsið til að fá sýninguna til sín, en sýningin er hugsuð fyrir börn frá leikskólaaldri og upp að tíu ára aldri. Allar nánari upplýsingar um sýninguna er hægt að nálgast á slóðinni www.moguleikhusid.is.