Arnold Schwarzenegger
Arnold Schwarzenegger
REPÚBLIKANINN Arnold Schwarzenegger, ríkisstjóri Kaliforníu, vann óvæntan sigur í atkvæðagreiðslu meðal kjósenda í ríkinu á þriðjudag um tillögur, sem hann hefur lagt fram og miða að því að reisa við fjárhag Kaliforníu.

REPÚBLIKANINN Arnold Schwarzenegger, ríkisstjóri Kaliforníu, vann óvæntan sigur í atkvæðagreiðslu meðal kjósenda í ríkinu á þriðjudag um tillögur, sem hann hefur lagt fram og miða að því að reisa við fjárhag Kaliforníu. Tillögur Schwarzeneggers fengu stuðning nær tveggja þriðju hluta atkvæða en skoðanakannanir fyrir atkvæðagreiðsluna bentu til að þær yrðu felldar.

Tæplega þriðjungur kjósenda í Kaliforníu studdi tillögur Schwarzeneggers fyrir mánuði en ríkisstjórinn hefur farið mikinn síðustu vikur til að afla tillögunum fylgis. Hann hélt fundi víða og safnaði um 10 milljónum dala í kosningasjóð, sem notaður var til að auglýsa í sjónvarpi og öðrum fjölmiðlum.

Schwarzenegger naut stuðnings margra helstu leiðtoga demókrata í málinu. Sagði ríkisstjórinn, þegar úrslitin lágu fyrir að þau sýndu að kjósendur vildu að repúblikanar og demókratar ynnu saman.

Tillögurnar voru annars vegar svonefnd tillaga 57, sem gerir ráð fyrir því að Kaliforníuríki gefi út skuldabréf fyrir 15 milljarða dala til að ná endum saman. Hin tillagan, númer 58, gerði ráð fyrir að þak yrði sett á útgjöld og að ríkisþinginu verði bannað að samþykkja frekari lántökur.

Los Angeles. AP, AFP.