FIMM frumvörp til breytinga á reglum um verðbréfamarkaðinn á næstu tveimur árum eru í undirbúningi hjá viðskiptaráðuneytinu. Frumvörpin verða unnin samkvæmt tilskipunum ESB um yfirtökur, markaðsmisnotkun, útboðslýsingar, upplýsingagjöf til Kauphallar og fjárfestingaþjónustu. Gert er ráð fyrir að fyrstu tvö frumvörpin, um markaðsmisnotkun annars vegar og yfirtökur hins vegar, verði lögð fyrir á haustþingi.
Benedikt Árnason, skrifstofustjóri fjármálamarkaðar hjá viðskiptaráðuneytinu, segir að þetta muni leiða til mikilla breytinga á regluverki um íslenskan verðbréfamarkað, þeirra mestu síðan EES-samningurinn var gerður.

Viðskiptaráðherra mun jafnframt á næstu vikum leggja fram á Alþingi skýrslu um stjórnarhætti fyrirtækja, þar sem m.a. eru tillögur um aukna vernd minnihluta í fyrirtækjum.

Löggjöfin yrði ófullnægjandi

Frumvörp sem lögð voru fram á þriðjudag um breytingar á lögum um verðbréfaviðskipti og hlutafélög mælast misjafnlega fyrir hjá greiningardeildum bankanna.

Greiningardeild KB banka telur að frumvörpin taki ekki heildstætt á reglum um yfirtökutilboð. Varað er við því að fella leikreglur með þetta nákvæmum hætti inn í lög enda séu fjármálamarkaðir í stöðugri þróun og hætt við að menn finni sér leiðir til að víkja sér undan markmiði laganna.

Greiningardeild Landsbankans telur að frumvarpið um hlutafélög yrði til bóta. Hins vegar séu ýmsir vankantar á frumvarpi um verðbréfamarkaði. Meðal annars megi gera ráð fyrir því að helmingur félaga á Aðallista Kauphallar Íslands falli undir skilgreiningu frumvarpsins á takmörkuðum veltuhraða.

Greiningardeild Íslandsbanka telur að gengið sé of langt með ákvæði um að hlutafélagi sé óheimilt að kaupa eignir af hluthöfum, stjórnarmönnum og framkvæmdastjórum félagsins. Hins vegar sé ekki gengið nægilega langt í skilgreiningum á skyldum eða tengdum aðilum og auðvelt gæti reynst að komast framhjá þeim reglum.

Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallar Íslands, segir að skoða þurfi málin betur, sér í lagi m.t.t. nánari skilgreiningar á skyldum aðilum og stefnu ESB og nágrannakauphalla.