Mynd ársins, Norðurljósin seld, eftir Pjetur Sigurðsson er tímanna tákn.
Mynd ársins, Norðurljósin seld, eftir Pjetur Sigurðsson er tímanna tákn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Opið alla daga nema mánudaga frá 11-17. Sýningu lýkur 21. mars.
SÝNING á úrvali blaðaljósmynda ársins 2003 var opnuð á laugardag. Sýning þessi er árlegur viðburður sem/og val á bestu blaðaljósmyndum ársins sem tilkynnt var á opnuninni. Þriggja manna dómnefnd frá Blaðaljósmyndafélagi Íslands hefur það vandasama verkefni að velja sigurmyndirnar í 8 flokkum og svo eina mynd sem þeir telja bera af öðrum. Úr nógu er að velja því það má með sanni segja að ljósmyndir skipi æ veigameiri sess í dagblöðum. Því til staðfestingar er fróðlegt að fletta eldri blöðum. Eftir því sem maður færist aftar í tíma þá fækkar myndunum. Í dag búum við á tíma neyslu, hraða, skyndibita og allt það. Lesendur vilja fá fréttir beint í æð með góðri mynd og stuttum texta.

Ég á mínar uppáhalds lélegu ljósmyndir sem birtast annað veifið í blöðunum, jafnvel á forsíðum, en það er þegar einhver hefur sloppið úr lífshættu, slasað sig eða verið laminn, stendur, situr eða liggur fótbrotinn og bendir á gifsið, sárið, bitið eða hvað það nú er sem hrjáir fyrirsætuna. Í slíkum myndum, sem eru furðu margar, er allt rými tekið frá lesandanum og þótt viðfangsefnið gefi ljósmyndaranum ekki mikið svigrúm þá drepur hann myndina með þessu móti. Góð blaðaljósmynd hlýtur að þurfa að vera á einhvern hátt opin þótt hún segi líka frétt, vekja í manni tilfinningar sem hafa með fréttina að gera án þess að loka fyrir hinn túlkandi huga. Af myndunum að dæma sem valdar voru á sýninguna, af þeim 1.000 myndum sem voru sendar inn, mundi ég ætla að dómnefndin liti þannig á málin. Mynd ársins, sem dæmi, segir fréttina af því þegar Jón Ólafsson selur fjölmiðlaveldi sitt. En hún sýnir líka mynd af samfélagi okkar, hraðanum eins og ég nefndi hér að ofanverðu, þegar Jón er að stíga úr einkaþotu sinni, labbar fáein skref yfir í bílinn sem bíður hans og er að tala í GSM-símann sinn á meðan. Á þessu augnabliki var Pjetur Sigurðsson réttur maður á réttum stað og smellti af mynd.

Eins og venjan er í slíkum samkeppnum þá eru aldrei allir á eitt sáttir við úrslitin og sjálf sýningin fer að virka eilítið eins og fegurðarsamkeppni, þ.e. að maður skoðar myndirnar, ber þær saman og samþykkir valið eða telur aðrar myndir eiga sigurinn skilið. Valið þykir mér nokkuð sannfærandi í ár þótt ég hefði kannski ekki valið eins sjálfur. Úrvalið er það mikið að endanlegar niðurstöður hafa örugglega kostað heilmikil heilabrot og yfirlegu. Sýninguna hafði ég svo ánægju af að skoða. Myndirnar eru ólíkar, spanna vítt svið og margar hverjar frábærar skrásetningar á atburðum síðasta árs.

Fréttamyndir síns tíma

Það hefur tíðkast hjá Gerðarsafni samhliða þessum árlega viðburði að gera einhverjum ljósmyndara sérstök skil á neðri hæðinni. Í fyrra var það einn af frumkvöðlum í blaðaljósmyndun á Íslandi, Ólafur K. Magnússon, og nú er það Magnús Ólafsson (1862-1937) sem varð fyrir valinu. Myndirnar eru fengnar frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur en rétt 3 mánuðir eru síðan yfirlitssýningu á myndum Magnúsar lauk þar. Þykir mér heldur skammur tími hafa liðið til að endursýna yfirlitssýninguna í næsta bæjarfélagi. Það ætti samt ekki að rýra gildi myndanna enda er Magnús frumherji á sviði ljósmyndunar á Íslandi.

Svo ítarlega var fjallað um sýningu Magnúsar í ljósmyndasafninu hér á síðum blaðsins síðustu vikuna í nóvember að mér finnst ég ekki hafa neinu við að bæta sem skilar mikilvægi Magnúsar í ljósmyndun á Íslandi. Aftur á móti eru myndirnar komnar í annað samhengi með fjöldann allan af blaðaljósmyndum á hæðinni fyrir ofan sig. Það má nefnilega líta á margar myndir Magnúsar sem fréttamyndir síns tíma, skrásetningar á atburðum og jafnvel skipa þær í flokka, s.s. í flokk íþróttamynda, portrettmynda og daglegs lífs, rétt eins og gert er á efri hæðinni. Mér finnst þó athyglisverðast að bera saman tímabilin og sjá hve mikið hefur breyst frá tíð Magnúsar. Borgin og fólkið eins og það birtist fyrir tæpri öld síðan. Einkaþotur og GSM símar svo afar fjarri Íslenskum lífsháttum.

Mynd sem minnisvarði

Í Ljósmyndasafni Reykjavíkur stendur yfir sýning á verkum annars frumkvöðuls í ljósmyndun á Íslandi, en það er Leifur Þorsteinsson sem er brautryðjandi í auglýsinga- og iðnaðarljósmyndun hér á landi. Leifur fæst þó ekki einungis við þess háttar ljósmyndatökur heldur hefur hann síðan árið 1963 myndað mannlífs- og götumyndir í Reykjavík. Er sýningin í ljósmyndasafninu yfirlit á þessum myndum Leifs og spannar um 30 ára tímabil, frá 1963 til 1993. Hér er því tímabil ekki eins fjarlægt nútímanum og við sjáum í myndum Magnúsar, en engu að síður áhugavert. Nokkuð er um myndraðir eða ljósmynda ritgerðir (photo essays) á sýningunni sem greina frá einstökum atburðum, eins og frá 50 mílna fundinum árið 1973 og frá Kvennadeginum árið 1975. Húsamyndirnar eru líka sem myndröð þótt hver mynd standi sjálfstæð. Það má því rýna í býsna vel ígrundaða formfræði í stökum myndum og líka taka inn myndröðina í heild sinni. Þær lýsa ekki atburðum eða augnabliki og sýna heldur ekki bara hús. Þær birtast mér sem minnisvarðar eða minnisvarði (monument) um byggingarnar, þungar, tómar og skarpar myndir.

Jón B.K. Ransu