* RÓBERT Gunnarsson átti stjörnuleik með Århus GF sem sigraði Ringsted á útivelli, 34:27, í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gær. Róbert skoraði 12 mörk, þar af þrjú úr vítaköstum. Þorvarður Tjörvi Ólafsson skoraði 2 mörk.
* RÓBERT Gunnarsson átti stjörnuleik með Århus GF sem sigraði Ringsted á útivelli, 34:27, í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gær. Róbert skoraði 12 mörk, þar af þrjú úr vítaköstum. Þorvarður Tjörvi Ólafsson skoraði 2 mörk.

* GUÐJÓN Valur Sigurðsson skoraði 4 mörk fyrir Essen þegar liðið lagði meistara Lemgo , 29:24, í þýsku Bundesligunni í handknattleik í gær. Rússneski landsliðsmaðurinn Dmitri Torgavanov skoraði 7 mörk fyrir Essen og Oleg Veleky 6. Í liði Lemgo var Daniel Stephan með 7 mörk og Marc Baumgartner 6.

* EINAR Örn Jónsson skoraði 4 mörk fyrir Wallau Massenheim í sigri liðsins á Nordhorn , 36:31.

* HAFÞÓR Einarsson, markvörður bikarmeistara KA í handknattleik, varð fyrir því óláni að brjóta bein í framhandlegg á æfingu í fyrrakvöld og er reiknað með að hann verði frá í allt að mánuð. Hafþór átti stórleik á milli stanganna í bikarúrslitaleiknum gegn Fram um síðustu helgi þar sem hann varði vel á þriðja tug skota.

*NORÐMAÐURINN Erik Mykland mun ekki leika fleiri leiki með

danska liðinu FC København vegna meiðsla og allt útlit er fyrir að hann hafi leikið sinn síðasta leik með danska liðinu þar sem samningur hans við félagið rennur út í sumar.

* NORSKA liðið Rosenborg er úr leik í UEFA-keppninni í knattspyrnu þrátt fyrir 2:1-sigur gegn Benfica frá Portúgal í síðari leik liðanna. Benfica vann fyrri leikinn 1:0 og komst áfram á marki skoruðu á útivelli. Miguel Nuno Gomes kom mikið við sögu í leiknum; hann skoraði markið sem skipti sköpum en var vísað af leikvelli í lok fyrri hálfleiks. Norðmennirnir sóttu án afláts í leiknum en náðu ekki að bæta við marki.

* ÞAÐ heyrðist vel í 3.000 stuðningsmönnum Vålerenga er norska liðið sótti Newcastle heim á St. James Park . Fyrri leik liðanna lauk með jafntefli, 1:1, í Ósló og um tíma í gær var staðan 1:1 og útlitið bjart.

* ALAN Shearer þakkaði fyrir veruna á varamannabekknum í fyrri leiknum með því að skora á 19. mínútu, Erik Hagen jafnaði á 25. mínútu en varamaðurinn Shola Ameobi skoraði tvívegis í síðari hálfleik. Lokatölur 3:1.

* HELGI Bragason körfuknattleiksdómari hefur ákveðið að hætta störfum sem alþjóðlegur dómari á vegum FIBA og mun ekki sækja námskeið á Kanaríeyjum í sumar til að viðhalda réttindum sínum. Helgi tók prófið sem FIBA- dómari í Osló árið 1992 og hefur því starfað sem slíkur í 12 ár. Á ferli sínum hefur hann dæmt marga leiki í Evrópu, bæði hjá félagsliðum og landsliðum. Frá þessu er greint á á vefsíðunni www.kki.is.