Harry hjálpar hinum fjögurra ára Mutsu að gróðursetja ávaxtatré.
Harry hjálpar hinum fjögurra ára Mutsu að gróðursetja ávaxtatré. — Reuters
HARRY Bretaprins, sem nú er staddur í Afríkuríkinu Lesótó, hefur farið fram á aukna erlenda aðstoð við landið, sem er eitt hið fátækasta í Afríku.
HARRY Bretaprins, sem nú er staddur í Afríkuríkinu Lesótó, hefur farið fram á aukna erlenda aðstoð við landið, sem er eitt hið fátækasta í Afríku. Markmiðið með dvöl Harrys í Lesótó er að aðstoða við ýmis verkefni, bæði við byggingavinnu og við mannúðarstörf. Spurður um dvöl sína í Afríku að undanförnu, sagði Harry, sem er 19 ára gamall, að hún hefði verið frábær. "Það er mjög skemmtilegt að geta kynnt sér menningu annarra þjóða," sagði Harry.

Hann sagðist hafa ákveðið að eyða hluta af ári, sem hann tekur í frí frá skóla heimafyrir, í að starfa í Lesótó, því lítið væri vitað um þetta litla konungsríki, sem er umlukt af Suður-Afríku. "Englendingar vita í raun ekki mikið um Lesótó. En Lesótó þarf á hjálp þeirra að halda á svo margan hátt," bætti prinsinn við.

Lesótó er eitt af fátækustu ríkjum Afríku en verg þjóðarframleiðsla á mann í landinu nemur einungis um 451 dollara, eða rúmum 30 þúsund íslenskum krónum, á ári hverju. Um 30% íbúa Lesótó eru smitaðir af alnæmi og samkvæmt tölum Sameinuðu þjóðanna eru lífslíkur á íbúa í landinu um 36 ár.

Harry og vinur hans, George Hill, hafa frá því um miðjan febrúar unnið við ýmis verkefni í norðurhluta Lesótó, svo sem að viðbyggingu heilsugæslustöðvar og við að reisa brú. Þeir hafa einnig gengið hús úr húsi í landinu og rætt við eyðnismitað fólk.

Harry er yngri sonur Karls, krónprins Bretlands, og Díönu prinsessu af Wales, sem lést fyrir tæpum sjö árum. Hann er þriðji í röðinni til þess að erfa bresku krúnuna á eftir föður sínum og bróður, William.