ENDURGREIÐSLUR ríkisins vegna tannlæknaþjónustu hafa lækkað og er æ algengara að efnaminna fólk veigri sér við að fara til tannlæknis að sögn Heimis Sindrasonar, formanns Tannlæknafélags Íslands. Það bitni ekki síst á börnum og unglingum.
ENDURGREIÐSLUR ríkisins vegna tannlæknaþjónustu hafa lækkað og er æ algengara að efnaminna fólk veigri sér við að fara til tannlæknis að sögn Heimis Sindrasonar, formanns Tannlæknafélags Íslands. Það bitni ekki síst á börnum og unglingum.

Samkvæmt fréttatilkynningu frá Tannlæknafélaginu miðast endurgreiðslurnar við úrelta gjaldskrá Tryggingastofnunar ríkisins en ekki verðskrá tannlækna. Það hefur gert það að verkum að raunkostnaður sjúklinga hækkar. Tekið er dæmi af aðgerð sem kostar að meðaltali um 10.600 kr.

Samkvæmt gjaldskrá TR kosti slík aðgerð 7.400 kr. og því miðist endurgreiðslan við 75% af þeirri upphæð sé um barn að 18 ára aldri, öryrkja eða ellilífeyrisþega að ræða. Í raun þýði það að fólk fái rúm 52% endurgreitt af kostnaðinum en ekki 75%.

Heimir segir þessa ábendingu ekkert eiga skylt við launakröfur tannlækna og sé mál sjúklinga og TR. Gjaldskrá TR hafi verið fryst í nokkur ár og hækkun á verðskrá lækna sé í takt við verðlagsþróun í landinu.