HALLDÓR Ásgrímsson utanríkisráðherra sagði eftir viðræður sínar við starfssystkin sín frá hinum Norðurlöndunum í gær að þeir Jan Petersen frá Noregi hefðu ekki rætt síldveiðideilu ríkjanna sérstaklega.
HALLDÓR Ásgrímsson utanríkisráðherra sagði eftir viðræður sínar við starfssystkin sín frá hinum Norðurlöndunum í gær að þeir Jan Petersen frá Noregi hefðu ekki rætt síldveiðideilu ríkjanna sérstaklega.

Í samtali við Morgunblaðið sagði Halldór það þó vera jákvætt, með tilliti til þess hnúts sem viðræðurnar um veiðar úr norsk-íslenzka síldarstofninum eru í, að Norðmenn skuli hafa tekið einhliða ákvörðun um að norsk skip veiði þó ekki meira en 57% af áætluðum heildarkvóta ársins úr stofninum. Þeir höfðu áður gert kröfu um 70% heildarkvótans, en hann er áætlaður 825.000 tonn í ár.

"Fyrir okkur er aðalatriði að byggja aftur upp stofninn og halda veiðunum í skefjum," segir Halldór. Því sé hin tiltölulega hófsama sjálfskömmtun Norðmanna á síldarkvóta jákvætt innlegg í málið eins og það er nú statt. "En þetta er á engan hátt niðurstaða," tekur Halldór fram, "vegna þess að við verðum að tryggja [...] samkomulag allra aðilanna fimm," sem koma að samningunum um veiðar úr þessum mikilvæga stofni.

Vonast enn til að samningar náist

Íslenzk stjórnvöld hafa ekki tekið ákvörðun um einhliða kvóta fyrir íslenzk skip, enn sem komið er að minnsta kosti. "Við erum enn að vonast til þess að samningar náist," segir Halldór; "það liggur alveg ljóst fyrir að ef að þeir nást ekki er okkur nauðugur einn kostur að taka hliðstæða ákvörðun [og Norðmenn hafa gert]."