Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra með sænska starfssystur sína, Lailu Freivalds, sér á hægri hönd og norska starfsbróðurinn Jan Petersen á vinstri hönd í Þjóðmenningarhúsinu í gær.
Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra með sænska starfssystur sína, Lailu Freivalds, sér á hægri hönd og norska starfsbróðurinn Jan Petersen á vinstri hönd í Þjóðmenningarhúsinu í gær. — Morgunblaðið/Ásdís
ÍSLAND og Noregur verða að una EES-samningnum óbreyttum á næstu árum. Þetta var meðal þess sem kom fram á blaðamannafundi utanríkisráðherra Norðurlandanna fimm - Íslands, Noregs, Svíþjóðar, Finnlands og Danmerkur - eftir viðræður þeirra í Reykjavík í...

ÍSLAND og Noregur verða að una EES-samningnum óbreyttum á næstu árum. Þetta var meðal þess sem kom fram á blaðamannafundi utanríkisráðherra Norðurlandanna fimm - Íslands, Noregs, Svíþjóðar, Finnlands og Danmerkur - eftir viðræður þeirra í Reykjavík í gær.

Hefð er fyrir því að þessir reglubundnu samráðsfundir ráðherranna séu haldnir af formennskuríki ráðherranefndar Norðurlandaráðs, en í ár gegnir Ísland því hlutverki.

Þeir Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra og hinn norski starfsbróðir hans, Jan Petersen, voru sammála um að Ísland og Noregur (og Liechtenstein, þriðja EFTA-ríkið í EES) yrðu að búa við EES-samninginn eins og hann er, þrátt fyrir að breytingar hjá Evrópusambandinu - einkum fjölgun aðildarríkja þess í 25 í vor og væntanlegur stjórnarskrársáttmáli - valdi því að íslenzk og norsk áhrif á nýja Evrópulöggjöf fari þverrandi og þessar breyttu aðstæður kölluðu því á uppfærslu EES-samningsins, eigi hann að gagnast Íslandi og Noregi eins vel og hann hefur gert á þeim áratug sem hann hefur verið í gildi.

Evrópumál voru fyrirferðarmikil á dagskrá viðræðna ráðherranna, sem fóru fram á þriðjudag og í gærmorgun. Reyndar voru þeir Per Stig Möller, utanríkisráðherra Danmerkur, og finnski ráðherrann Erkki Tuomioja ekki á blaðamannafundinum þar sem önnur brýn erindi höfðu kallað þá aftur frá landinu.

Í yfirliti sem Halldór gaf um inntak viðræðnanna kom fram að þar hefði m.a. borið á góma norrænt samráð um Evrópumál, stækkun Evrópusambandsins (ESB) og Evrópska efnahagssvæðsins (EES), nýr stjórnarskrársáttmáli ESB og svonefnt Lissabon-ferli um stefnu ESB að bættri samkeppnishæfni evrópsks efnahagslífs. Þá var að sögn Halldórs fjallað um öryggismál og ýmis alþjóðamál.

Utanríkisráðherra lagði í máli sínu áherzlu á mikilvægi þess að viðhalda og styrkja samvinnu og samráð Norðurlanda, ekki einungis um Evrópumál, heldur einnig á sviði utanríkismála almennt. Hann sagði væntanlega stækkun ESB og Evrópska efnahagssvæðisins sögulegan viðburð, ekki aðeins í viðskiptalegu tilliti. Stækkunin fæli í sér að söguleg og pólitísk skil á milli ríkja og þjóða í Evrópu væru afmáð.

Á fundinum var ennfremur fjallað um öryggismál og stöðu mála í Afganistan, Írak og fyrir botni Miðjarðarhafs.

Aðspurð um norrænar áherzlur í væntanlegum stjórnarskrársáttmála ESB sagði Laila Freivalds, utanríkisráðherra Svíþjóðar og eini fulltrúi norræns ESB-ríkis á blaðamannafundinum, að hún teldi norrænar áherzlur, svo sem á gegnsæi ákvarðanatöku innan ESB og lýðræðislegt lögmæti þeirra, hafa skilað sér bærilega inn í sáttmáladrögin. Hún sagði það hafa verið vonbrigði að ekki skyldi hafa tekizt samkomulag um þau á leiðtogafundi ESB í lok síðasta árs. Nú væri það í höndum írsku ESB-formennskunnar að leita sátta um þau atriði sem út af stóðu, en hún væri þó ekki allt of vongóð um að samkomulag kæmist í höfn fyrr en kannski í haust; það gæti jafnvel dregizt fram á næsta ár.

Hinn norski Jan Petersen sagði eðlilegt að þótt Norðmenn - rétt eins og Íslendingar - hefðu sínar hugmyndir um það hvað æskilegast væri að kæmi út úr stjórnarskrármálinu, þ.e. hvaða mynd ESB mun taka á sig, gæfi að skilja að þar sem þeir hefðu valið sér að standa á hliðarlínunni og fylgjast með þessu breytingaferli ESB utan frá, hefðu þeir engin áhrif á hvaða stefnu það tæki. Petersen tók fram að það myndi skýrast eftir næstu Stórþingskosningar, haustið 2005, hvort Noregur myndi á því kjörtímabili stefna á fulla aðild að sambandinu.

Fagna viðleitni til jöfnunar ágreinings yfir Atlantshaf

Varðandi öryggismál greindi Halldór frá því að ráðherrarnir fögnuðu því að hlutaðeigandi aðilar legðu sig fram við að jafna þann ágreining sem upp kom á milli nokkurra evrópskra aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins annars vegar og Bandaríkjanna hins vegar vegna innrásarinnar í Írak. Vilji væri beggja vegna Atlantshafsins til þess að efla Atlantshafstengslin á ný og væri það afar mikilvægt, ekki síst með tilliti til áframhaldandi þróunar sameiginlegrar öryggis- og varnarmálastefnu ríkja Evrópusambandsins (ESDP).

Halldór upplýsti starfssystkin sín um undirbúning þess að Ísland taki við stjórn flugvallarins í Kabúl í Afganistan á miðju þessu ári, en það er eitt umfangsmesta verkefni sem Íslenzka friðargæzlan hefur fengizt við.