Þórunn Sigurðardóttir, listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík, og Gerður G. Óskarsdóttir fræðslustjóri handsala samstarfssamninginn.
Þórunn Sigurðardóttir, listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík, og Gerður G. Óskarsdóttir fræðslustjóri handsala samstarfssamninginn. — Morgunblaðið/Golli
FRÆÐSLUMIÐSTÖÐ Reykjavíkur og Listahátíð í Reykjavík hafa gert með sér samstarfssamning, sem undirritaður var með viðhöfn í Borgarleikhúsinu í gær.
FRÆÐSLUMIÐSTÖÐ Reykjavíkur og Listahátíð í Reykjavík hafa gert með sér samstarfssamning, sem undirritaður var með viðhöfn í Borgarleikhúsinu í gær. Í máli Stefáns Jóns Hafstein, formanns menningarmálanefndar Reykjavíkur, kom fram að markmiðið með samstarfsverkefninu væri að veita nemendum í grunnskólum borgarinnar tækifæri til að taka þátt í viðburðum á Listahátíð í Reykjavík, kynnast starfi starfandi listamanna og koma þannig til móts við markmið í aðalnámskrá um skapandi skólastarf og þátttöku í menningu samfélagsins. "Með þessum samningi viljum við efla listræna sköpun í skólum, enda er eitt af mikilvægustu hlutverkum skólakerfisins að veita öllum tækifæri til listsköpunar."

Þórunn Sigurðardóttir, listrænn stjónandi Listahátíðar, fagnaði þeim áfanga sem nú hefði náðst með gerð samstarfssamningsins. Í máli hennar kom fram að um þrjú ólík verkefni væri að ræða á sviði leiklistar, myndlistar og tónlistar. Hún sagði samstarfið ekki hafa átt sér langan aðdraganda, en árið 2000 var gerð tilraun með samvinnu listamanna og skóla og hafi það gefið góða raun, sem skipuleggjendur búi að núna. Í máli Þórunnar kom fram að snerting barna við liststarf geti skipt sköpum í vali þeirra á starfsvettvangi síðar.

Helga Arnalds leikkona kynnti fyrsta verkefnið sem nefnist Lifandi líkneski. Í því verkefni gefst 180 grunnskólanemum úr þremur skólum kostur á að smíða líkneski undir stjórn Tamöru Kirby söngkonu frá Ástralíu, en hún hefur einmitt sérhæft sig í samfélagslist og er vön að vinna með stórum hópi skólabarna. Börnin munu auk þess taka þátt í opnunaratriði barna- og unglingahátíðar á vegum Assitej sem haldin er dagana 15.-19. maí nk., ásamt leikurum hátíðarinnar. En það er Ágústa Skúladóttir leikstjóri sem stýrir opnunaratriðinu.

Guja Dögg Hauksdóttir arkitekt kynnti verkefni á vegum Arkitektafélagsins þar sem nýjar víddir á Laugavegi verða kannaðar. Grunn- og listaskólanemar ásamt arkitektum munu greina, túlka og miðla sýn sinni á Laugaveginum með sérstaka áherslu á þeirri byggingarlist sem blasir við í götunni. Þau munu vinna ýmis verkefni með frjálsi aðferð og verður afraksturinn til sýnis í búðargluggum við Laugaveginn.

Rithöfundurinn Sjón kynnti samstarfsverkefni við Brodsky-strengjakvartettinn, en í lok maí mun hann ásamt kvartettinum flytja tónverk eftir Julian Nott sem nefnist Anna og skapsveiflurnar. Að sögn Sjóns pantaði Brodsky-strengjakvartettinn verkið hjá Nott þar sem meðlimir kvartettsins áttu sér þann draum að fara í tónleikaferð um England og spila fyrir ungt fólk.

Við sama tækifæri í gær var undirritaður samningur til þriggja ára milli borgarinnar og Myndlistarskólans í Reykjavík, en samningnum er ætlað að tryggja rekstraröryggi skólans á næstu árum.