Skálholt.
Skálholt. — Morgunblaðið/Þorkell
HELGINA 12.-14. mars verða kyrrðardagar í Skálholti þar sem Þorvaldur Halldórsson tónlistarmaður annast leiðsögn. Tengir hann texta og tónlist þekktra laga hugleiðingum sínum, syngur lögin og leiðir söng þátttakenda. Hvað gerist á kyrrðardögum?

HELGINA 12.-14. mars verða kyrrðardagar í Skálholti þar sem Þorvaldur Halldórsson tónlistarmaður annast leiðsögn. Tengir hann texta og tónlist þekktra laga hugleiðingum sínum, syngur lögin og leiðir söng þátttakenda.

Hvað gerist á kyrrðardögum?

Á kyrrðardögum förum við í hvarf, tökum okkur hlé frá daglegri önn og amstri, njótum friðar og hvíldar - njótum þess að vera án áreitis. Þögnin og kyrrðin veita tækifæri til íhugunar, að mæta sjálfum sér og Guði, sjá líf sitt í nýrri vídd og láta uppbyggjast og endurnærast á sál og líkama

Fólk leitar líka á kyrrðardaga til að takast á við erfiða ákvörðun eða þungbærar fréttir með stuðningi starfsfólksins, í hinni hlýju þögn. Boðið er upp á trúnaðarsamtöl og fyrirbæn.

Dagskrá kyrrðardaganna

Kyrrðardagarnir hefjast með kvöldtíðum kl. 18 á föstudagskvöldið, síðan er kvöldverður og kynningarstund áður en þögnin gengur í garð síðla kvölds. Hugleiðingar eru fluttar tvisvar á dag um stef daganna og fylgt er helgihaldi staðarins. Við máltíðir er leikin sígild tónlist. Boðið er upp á staðarskoðun í formi bænagöngu. Þögninni er síðan aflétt um hádegisbil síðasta daginn.

Ofangreind dagskrá er þó aðeins tilboð, þátttakendur ráða því hvernig þeir verja tíma sínum, hvað þeir sækja af dagskrárliðum. Úrval vandaðs lesefnis er til reiðu. Fólk kemur sem einstaklingar til kyrrðardaganna, þótt komið sé í litlum hópum vina eða vandamanna

Gott er að taka með sér bæði inniskó og gönguskó, yfirhöfn og hvíldarfatnað, ritföng og pappír. Rúmin eru uppbúin, í einbýli eða tvíbýli ef óskað er.

Skráning og kostnaður

Rektorshjónin í Skálholti, Rannveig Sigurbjörnsdóttir og sr. Bernharður Guðmundsson, annast umsjón kyrrðardaganna en leiðsögn þeirra eins og fyrr segir er í höndum Þorvalds Halldórssonar tónlistarmanns.

Kostnaði er mjög í hóf stillt; kr.10.000 fyrir dvölina frá föstudagskvöldi til sunnudagsíðdegis, og þá er allt innifalið. Svövusjóður styrkir þau sem þess þurfa til þátttöku í kyrrðardögum.

Nánari upplýsingar og skráning er í Skálholtsskóla, sími 4868870, netfang skoli@skalholt.is.

Alþjóðlegur bænadagur kvenna í Selfosskirkju

Frá sólarupprás á eyjunum í Kyrrahafi þar til dagurinn sem guð gaf okkur er að kvöldi kominn á ísiþöktum ströndum Alaska munu bænir fyrir konum í heiminum hljóma.

Í Selfosskirkju koma kirkjudeildir saman kl. 10 á morgun, föstudag, og flytja bænaefni sem að þessu sinni koma frá konunum í Panama. Kaffisopi eftir bænir.