BRESKT herlið verður að vera í Írak "í tvö ár að minnsta kosti og líklega lengur" vegna upplausnarinnar í landinu eins og hryðjuverkin í Karbala og Bagdad eru til marks um.
BRESKT herlið verður að vera í Írak "í tvö ár að minnsta kosti og líklega lengur" vegna upplausnarinnar í landinu eins og hryðjuverkin í Karbala og Bagdad eru til marks um. Kom þetta fram í gær hjá Jeremy Greenstock, fulltrúa bresku stjórnarinnar í Írak. Paul Bremer, ráðsmaður Bandaríkjanna í Írak, sagði í gær, að gæsla á landamærum Íraks yrði stóraukin.

Greenstock sagði í viðtali við BBC, breska ríkisútvarpið, að mikil ögurstund væri runnin upp fyrir Írökum, sem nú yrðu að sameinast gegn ofbeldisöflunum. Sagði hann, að þeir, sem vildu koma í veg fyrir uppbyggingu nýs Íraks, ætluðu sér "að herða á ofbeldinu" þá mánuði, sem enn væru til formlegra valdaskipta í landinu.

Greenstock sagði, að breska herliðið yrði áfram í Írak eftir valdatöku íraskrar bráðabirgðastjórnar á miðju sumri og spáði því, að það yrði þar enn næstu tvö árin og hugsanlega lengur. Sagði hann, að í því yrði þó fækkað eftir því sem Írakar sjálfir næðu betri tökum á ástandinu.

Landamæra- vörðum fjölgað

Bremer sagði í gær, að 60 millj. dollara, 4,2 milljörðum ísl. kr., yrði varið til að efla gæslu á landamærunum og landamæravörðum fjölgað um helming sums staðar.

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, sagði í gær á þingi í umræðum um hryðjuverkin í Írak, að þangað "streymdu nú hryðjuverkamenn alls staðar að frá Mið-Austurlöndum".

London. AFP.