Í KVÖLD í Hamborg verður nýjasta mynd leikstjórans Lars Büchel frumsýnd. Ber hún heitið Baunir klukkan hálfsex ( Erbsen auf halb 6 ) og fer Hilmir Snær Guðnason með aðalhlutverkið ásamt hinni stórefnilegu Fritzi Haberlandt.
Í KVÖLD í Hamborg verður nýjasta mynd leikstjórans Lars Büchel frumsýnd. Ber hún heitið Baunir klukkan hálfsex (Erbsen auf halb 6) og fer Hilmir Snær Guðnason með aðalhlutverkið ásamt hinni stórefnilegu Fritzi Haberlandt.

Myndin fjallar um leikstjóra sem missir sjónina í bílslysi. Hann kynnist í framhaldinu konu sem svipað er ástatt með og hlutirnir æxlast þannig að þau leggja upp í ferðalag saman. Áhorfendur fylgjast svo með samskiptum parsins og sárri baráttu leikstjórans við að ná sáttum við nýjan veruleika.

Hilmir Snær er staddur úti í Þýskalandi og var viðstaddur frumsýningu myndarinnar í Hamborg í gær. Hann mun svo sækja aðra sýningu myndarinnar í Kiel í kvöld, sem er heimabær leikstjórans.

"Myndin var tekin upp síðasta vetur og sumar," segir Hilmir, þar sem hann talar frá Hamborg.

Og hvernig gekk?

"Þetta gekk vel. Þetta var svona hæfilegur biti að kyngja, mikil þýska sem ég þurfti að læra t.d."

Sá sem þú leikur heitir Jakob Magnússon?!

"Já (hlær). Það vantar bara f-ið á milli. Mér fannst það mjög fyndið þegar ég sá þetta nafn."

Er mikið tilstand í kringum myndina?

"Það er a.m.k. búið að þekja alla Berlín og alla Hamborg með veggspjöldum. Jú, og líka fullt af blaðagreinum og svona."

En hvernig kom það til að þú landaðir þessu hlutverki?

"Ég fór bara í prufu og þá var búið að prófa fimmtíu þýska leikara. Þeim fannst ég smella í þetta um leið og ég kom. Það var einhver efi alveg fyrst en um leið og prufan var að baki skiptu þeir um skoðun."

Ertu búinn að fá einhver fleiri tilboð í kjölfarið? Kannski Pirates of the Caribbean?

"Nei, nei (hlær). Það er ekkert svoleiðis í gangi. En það eru miklar líkur á því að maður fái einhver tilboð í Þýskalandi."