Kerry var vel fagnað í Orlando á Flórída í gær og fékk hann meðal annars að hampa einum framtíðarkjósanda, sex mánaða gamalli stúlku.
Kerry var vel fagnað í Orlando á Flórída í gær og fékk hann meðal annars að hampa einum framtíðarkjósanda, sex mánaða gamalli stúlku. — Reuters
JOHN Kerry, öldungadeildarþingmaður og frambjóðandi demókrata í forsetakosningunum í Bandaríkjunum í haust, hóf í gær kosningbaráttuna með táknrænni heimsókn í Flórída, þar sem gert var út um sigurvonir demókrata fyrir fjórum árum.
JOHN Kerry, öldungadeildarþingmaður og frambjóðandi demókrata í forsetakosningunum í Bandaríkjunum í haust, hóf í gær kosningbaráttuna með táknrænni heimsókn í Flórída, þar sem gert var út um sigurvonir demókrata fyrir fjórum árum.

Kerry vann stórsigur í forkosningum demókrata í fyrradag, sigraði í níu ríkjum af 10, og varð það til þess, að eini keppinautur hans, öldungadeildarþingmaðurinn John Edwards, ákvað að leggja árar í bát.

Virðast demókratar ganga sameinaðir til kosningabaráttunnar en Kerry sagði í gær, að leiðin framundan yrði torsótt.

"Við þekkjum öll áróðursaðferðir repúblikana og vitum hvað þeir hafa gert og hvað þeir munu reyna að gera. Boðskapur okkar til þjóðarinnar er hins vegar skýr: Það er breyting í aðsigi í Bandaríkjunum," sagði Kerry í gær á fundi með stuðningsmönnum sínum.

Repúblikanar og George W. Bush forseti eru einnig komnir á fullt í kosningabaráttunni og dag munu þeir hleypa af stokkunum tveggja mánaða áróðursherferð í sjónvarpi. Verður henni sérstaklega beint að þeim 17 ríkjum þar sem baráttan er líklegust til að verða hvað jöfnust.

Hugað að varaforsetaefni

Búist er við, að Kerry muni nú snúa sér að því að velja sér varaforsetaefni en margir telja, að John Edwards komi þar sterklega til greina. Fór Kerry mjög lofsamlegum orðum um hann í fyrradag og Edwards galt í sömu mynt með því að kalla Kerry vin sinn.

Annað meginverkefni demókrata á næstunni verður að afla meira fjár til kosningabaráttunnar en repúblikanar ráða nú þegar yfir 140 milljónum dollara, 9,8 milljörðum ísl. kr.

Washington. AP, AFP.