ÍSLANDS- og bikarmeistarar ÍBV í handknattleik kvenna leika báða leiki sína gegn Salonastit Vranjic frá Króatíu í átta liða úrslitum Áskorendabikarsins á heimavelli sínum í Vestmannaeyjum.
ÍSLANDS- og bikarmeistarar ÍBV í handknattleik kvenna leika báða leiki sína gegn Salonastit Vranjic frá Króatíu í átta liða úrslitum Áskorendabikarsins á heimavelli sínum í Vestmannaeyjum. Samningar um það tókust við króatíska félagið í gær og verður fyrri leikurinn laugardaginn 13. mars klukkan 16.30 og sá síðari daginn eftir klukkan 12 á hádegi.

Hlynur Sigmarsson, formaður kvennaráðs ÍBV, sagði við Morgunblaðið að það væri heldur dýrari kostur að fá Króatana hingað í báða leikina, en að spila heima og heiman. "En við höfum mikinn metnað fyrir því að komast í undanúrslit keppninnar og leggjum allt í sölurnar til þess. Það er frábært fyrir stúlkurnar og kvennahandboltann yfirleitt að fá þessa leiki hingað, við höfum fengið góð orð frá Vestmannaeyjabæ og fyrirtækjum hér í Eyjum um stuðning og vonandi gengur það eftir. Eins vonumst við til þess að Eyjamenn fjölmenni á leikina og styðji liðið af krafti en það komast 700-800 manns í húsið með góðu móti," sagði Hlynur.

Ágætir möguleikar hjá ÍBV

Hann telur að ÍBV eigi ágæta möguleika á að komast áfram. "Samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum aflað okkur eigum við að geta slegið þetta lið út. Það er með fjórar landsliðskonur innanborðs, sem léku á HM í fyrra, og er í öðru sæti deildarinnar, en meiðsli hafa sett einhver strik í reikninginn," sagði Hlynur Sigmarsson.

Vranjic mætti öðru króatísku liði, Virovitica, í 32 liða úrslitum keppninnar og vann báða leikina, 24:22 á útivelli og 34:25 á heimavelli. Í 16-liða úrslitum lék Vranjic gegn Motor 2 Zaporoshje frá Úkraínu og vann báða leikina, sem báðir fóru fram í Króatíu. Fyrst 31:28 og síðan 26:25.

Vranjic hefur ekki leikið í Evrópumótum félagsliða undanfarin ár. Króatísk kvennalið hafa af og til náð langt og tvívegis spilað úrslitaleiki á síðustu þremur árum, í Áskorendabikarnum og Evrópukeppni bikarhafa, en beðið lægri hlut í bæði skiptin.