FIMM leikmenn úr KR sem eiga eftir að taka út leikbönn frá síðasta keppnistímabili afplána þau í Meistarakeppni KSÍ. Fjórir í leik karlaliðsins gegn ÍA annað kvöld og einn í leik kvennaliðsins gegn Val á sunnudagskvöld.

FIMM leikmenn úr KR sem eiga eftir að taka út leikbönn frá síðasta keppnistímabili afplána þau í Meistarakeppni KSÍ. Fjórir í leik karlaliðsins gegn ÍA annað kvöld og einn í leik kvennaliðsins gegn Val á sunnudagskvöld.

Garðar Jóhannsson og Sverrir Bergsteinsson fengu báðir rauða spjaldið í síðasta leik Íslandsmótsins í fyrra, þegar KR steinlá fyrir FH, 7:0. Þeir Sölvi Davíðsson og Páll Kristjánsson áttu eftir að taka út bann vegna fjögurra gulra spjalda með 2. flokki KR og gera það því í fyrsta mótsleik meistaraflokks á þessu ári.

Embla Grétarsdóttir þarf einnig að taka út bann vegna fjögurra gulra spjalda á síðasta ári og verður því ekki með kvennaliði KR. Íris Andrésdóttir, fyrirliði Vals, verður einnig í banni á sunnudagskvöldið þar sem hún var rekin af velli í lokaleik Vals á Íslandsmótinu í fyrra.

Meistarakeppnin er ávallt tengd Íslandsmóti og bikarkeppni á þennan hátt en aftur á móti hafa spjöld í deildabikarnum ekki áhrif þar sem refsingar í honum eru aðeins teknar út í þeirri keppni.