FYRSTU næturnar þínar vöktum við töluvert mikið saman, þú og ég. Við fórum fram úr um það bil tvisvar á nóttu og vorum í um einn og hálfan tíma saman að dúlla okkur.
FYRSTU næturnar þínar vöktum við töluvert mikið saman, þú og ég. Við fórum fram úr um það bil tvisvar á nóttu og vorum í um einn og hálfan tíma saman að dúlla okkur. Oft sofnaðir þú í fanginu á mér en ég bara tímdi ekki að sleppa, horfði bara á þig og öll svipbrigðin þín. Meðgangan býr mann reyndar ágætlega undir þessa næturvöku. Síðustu vikur meðgöngunnar er maður alveg hættur að sofa heilan svefn, bumban er orðin svo stór og fyrirferðarmikil að maður vaknar við hverja hreyfingu. Snúningslakið er samt alveg stórkostleg uppfinning, ég var farin að nota það strax á fimmta eða sjötta mánuði. Þetta lak er þannig úr garði gert að það er tvöfalt og snýst eiginlega á sjálfu sér. Í hvert sinn sem ég hreyfði mig, snerist því lakið á sjálfu sér og auðveldaði mér hreyfingarnar. Bumban er reyndar eitt merkilegasta ferlið í óléttunni. Í byrjun meðgöngunnar stóð ég stundum fyrir framan spegilinn á baðinu og þandi magann á mér út eins og ég gat, var að reyna að ímynda mér hvernig þetta yrði allt saman. Ég gat varla beðið. Þegar maginn fór síðan að stækka, gerðist það svo hratt að það varð eiginlega vandræðanlegt.

Ég man að á mánudegi fór pabbi þinn út á sjó og ég fór þann daginn í hefðbundinni buxnadragt í vinnuna. Þetta var einn síðasti dagurinn sem ég klæddist mínum gömlu fötum. Um kvöldið mátaði mamma á mig pils sem hún var að sauma á mig. Þremur dögum síðar þurfti hún að víkka pilsið, það var orðið of þröngt! Þessi reynslumikla saumakona ætlaði varla að trúa sínum eigin augum. Á laugardeginum á undan hafði ég farið á fund og hitt fullt af fólki. Viku síðar fór ég á sams konar fund, hitti sama fólkið en þá kasólétt! Auðvitað ýki ég þetta aðeins en ég man nú samt að eitt kvöldið sat ég uppi í rúmi, horfði á magann á mér og hugsaði: Hvernig getur þetta verið að gerast? Mittið var að fara og maginn á mér að stækka og breyta um lögun. Hvoru tveggja hafði ég beðið eftir en þetta var nú samt sem áður að gerast ískyggilega hratt. Ég spurði því lækninn minn: Er þetta eðlilegt? "Jú, þetta er fullkomlega eðlilegt og bara misjafnt hjá konum. Náttúran sér bara til þess að þetta fari í þann farveg sem líkamanum hentar hverju sinni. Þú verður fljót að fá kúlu." Ég hef því alltaf sagt að ég hafi orðið ólétt svo snemma að það hafi verið farið að sjást á mér daginn eftir!

Meira á morgun.