Tomas Malakauskas leiddur fyrir dómara í Héraðsdómi í gær.
Tomas Malakauskas leiddur fyrir dómara í Héraðsdómi í gær. — Morgunblaðið/Júlíus
HÉRAÐSDÓMUR Reykjavíkur úrskurðaði í gær sakborningana þrjá í líkfundarmálinu í þriggja vikna áframhaldandi gæsluvarðhald.
HÉRAÐSDÓMUR Reykjavíkur úrskurðaði í gær sakborningana þrjá í líkfundarmálinu í þriggja vikna áframhaldandi gæsluvarðhald. Þeir Grétar Sigurðsson og Jónas Ingi Ragnarsson kærðu úrskurðinn til Hæstaréttar í gær og lögmaður Tomasar Malakauskas segist einnig munu kæra úrskurðinn.

Við rannsókn tæknimanna lögreglunnar í Reykjavík og ríkislögreglustjóra fannst blóð úr hinum látna í BMW-bifreið annars Íslendinganna. Einnig fannst blóð úr eigandanum í bílnum. Arnar Jensson aðstoðaryfirlögregluþjónn staðfesti þetta við Morgunblaðið í gær. Litháski sakborningurinn sem sætir gæsluvarðhaldi mun hins vegar hafa haft bifreiðina til umráða þótt hún væri skráð á Íslendinginn. Tveir sakborninganna voru handteknir saman á BMW-bifreiðinni skömmu áður en þeir fóru í gæsluvarðhald og hefur bifreiðin verið í vörslu lögreglunnar síðan.

Ekki er vitað um tildrög þess að blóð úr mönnunum lak í bifreiðina en ekki er útilokað að hinn látni og umræddur sakborningur hafi blóðgað sig í átökum sín á milli. Blóðgreiningin hefur verið staðfest með DNA-rannsókn í Noregi þar sem rannsóknarbeiðni íslensku lögreglunnar fékk flýtimeðferð.

Við rannsóknina hefur einnig vaknað grunur um að hinn látni hafi fengið morfínefni e.t.v. til að lina þjáningar. Arnar Jensson segir sterkan grun um að hinn látni hafi verið á morfínefnum jafnvel í nokkra sólarhringa fyrir andlátið.

Hnífurinn sem fannst við netabryggjuna í Neskaupstað er í rannsókn en um er að ræða veiðihníf í slíðri. Grunur leikur á að hnífurinn sem fannst hafi verið notaður til að veita hinum látna áverka sem á honum fundust.

Í gær sendi Inger L. Jónsdóttir, sýslumaður á Eskifirði, frá sér yfirlýsingu um að rannsókn málsins flytjist til ríkislögreglustjóra. Meint brot, sem framin voru fyrir líkfundinn, hafi átt sér stað á höfuðborgarsvæðinu og innflutningur fíkniefna sé talinn hafa farið í gegnum Keflavíkurflugvöll. Aðalvettvangur rannsóknarinnar sé því ekki lengur í hennar umdæmi.