Hafrannsóknastofnun hefur lagt til að rækjuveiðar verði ekki leyfðar í Ísafjarðardjúpi í vetur en rækjuveiðar hafa aldrei fyrr verið bannaðar í Ísafjarðardjúpi frá því veiðarnar hófust árið 1935.

Hafrannsóknastofnun hefur lagt til að rækjuveiðar verði ekki leyfðar í Ísafjarðardjúpi í vetur en rækjuveiðar hafa aldrei fyrr verið bannaðar í Ísafjarðardjúpi frá því veiðarnar hófust árið 1935. Talið er að mikil þorskgengd undanfarna vetur hafi einkum minnkað stofnstærð rækju í Ísafjarðardjúpi.

Um tíu bátar stunda veiðar í Ísafjarðardjúpi og segir Konráð Eggertsson, skipstjóri á rækjubátnum Halldóri Sigurðssyni ÍS, að rækjubann þýði rothögg fyrir margar útgerðir. Hann segir að margir bátanna hafi legið bundnir við bryggju í allan vetur, enda hafi þeir ekki að öðrum verkefnum að hverfa. "Þetta má kalla náttúruhamfarir, líkt og hrun hörpuskelstofnsins í Breiðafirði. Það hefur stefnt í þetta lengi en ég er ekki viss um að aukinni þorskgengd sé um að kenna. Að mínu viti er skýringin fyrst og fremst sú að við höfum veitt of mikið af rækju í Djúpinu á undanförnum árum."