ÞORGERÐUR Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra hefur áskilið sér rétt til að meta framhaldið á fyrirkomulagi samræmdra stúdentsprófa, sem verða í fyrsta sinn þreytt í vor.
ÞORGERÐUR Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra hefur áskilið sér rétt til að meta framhaldið á fyrirkomulagi samræmdra stúdentsprófa, sem verða í fyrsta sinn þreytt í vor. Steingrímur Sigurgeirsson, aðstoðarmaður ráðherra, segir það ávallt hafa staðið til og því hafi Þorgerður talið rétt að fara með málið fyrir ríkisstjórnarfund til upplýsingar á þriðjudag.

Steingrímur segir miklar breytingar framundan á framhaldsskólastiginu vegna fyrirhugaðrar styttingar náms til stúdentsprófs. Allt skólastigið sé þar undir og jafnframt tengsl við grunnskóla. Því sé ekki hægt að útiloka að það hafi einhver áhrif á samræmd stúdentspróf. Menntamálaráðherra hafi áskilið sér rétt til að meta framhaldið á grundvelli könnunarprófs í íslensku í vor og niðurstöðu þriggja starfshópa um styttingu náms til stúdentsprófs sem séu að störfum.

Þátttakan í prófinu í maí virðist ætla að verða nokkuð góð segir Steingrímur og það sé fagnaðarefni. Námsmatsstofnun hafi lagt mikla vinnu í prófið og unnið í góðri samvinnu við framhaldsskólana í landinu.