Emil Hjörvar Petersen
Emil Hjörvar Petersen
Það er eitthvað að landi þar sem iðnmenntun er á niðurleið.
MEÐAL sérhverrar kynslóðar nemenda í grunnskólum landsins er hópur sem á erfitt uppdráttar í bóklegu námi. Þessir nemendur verða oft utangátta, eru settir í sérkennslu og jafnvel lagðir í einelti. Flestir hafa þá reynslu að hafa verið í bekk, þar sem minnst tveir nemendur voru í þessari aðstöðu. Eftir því sem á líður skaðast sjálfsmynd þessara barna, vegna síendurtekinnar niðurlægingar. Að auki missa þau virðingu fyrir sjálfum sér og trú á getu sína og hæfni.

Menntakerfi okkar býður ekki upp á mikið fyrir þessa einstaklinga. Svigrúm fyrir fjölbreytni er lítið og alltaf er lögð mest áhersla á stærðfræði, íslensku og aðrar bóklegar greinar. Samræmdu prófin bæta svo gráu ofan á svart. Próf þessi gera lítið annað en að mismuna nemendum eftir getu í bóknámi, flokka þá og dæma. Þegar komið er í gagnfræðiskóla eru sumir búnir að fá sig fullsadda og staðráðnir í að hætta í skóla. Síðastliðin ár hefur brottfall í 10. bekk og á fyrsta ári framhaldsskólanna stóraukist og er það mjög slæm þróun.

Allmargir nemendur sem hverfa frá námi hafa gjarnan staðið sig vel í verklegum greinum. Það er þó ekki lagt til grundvallar við inntökuskilyrði framhaldsskólanna. Mikilvægt er að koma á breytingum varðandi þennan þátt, þ.e. fjölbreyttari viðmið við inntökuskilyrði framhaldsskóla í bók- og verknámi. Slíkt væri til mikilla hagsbóta, ekki einungis fyrir tiltekna nemendur, heldur skólakerfið og þjóðfélagið í heild. Gott þjóðfélag byggist m.a. á góðri dreifingu á vinnumarkaðnum. Ef fólk kemur úr menntakerfinu út á vinnumarkaðinn með öryggi, góða sjálfsmynd og stolt yfir menntun sinni og gjörðum næst miklu meiri árangur á öllum sviðum, þ.e.a.s. meiri afköst, vinnugleði og velferð.

Skólakerfið er of staðlað. Það er ekki lagað að einstaklingnum. Þessu er einnig nauðsynlegt að breyta. Mögulegt er að auka valfrelsi nemenda mun fyrr, því þegar nemendur eru ungir er hægt að sjá tiltölulega fljótt hverjar eru sterkustu hliðar þeirra. Sem dæmi má nefna að Þjóðverjar kynna mismunandi leiðir til náms mjög snemma fyrir nemendum. Danir eru mjög framarlega í skipulagi á iðnmenntun, þannig að sá sem nær ekki ákveðnum bóklegum greinum í efri bekkjum grunnskóla færist í millibekk þar sem lögð er áhersla á atvinnutengt nám.

Iðnnám þyrfti að vera kynnt mun fyrr í grunnskólum landsins. Það þyrfti að vera þrepatengt réttindanám, t.d. þannig að eftir eins árs nám fengi maður réttindi til að vinna einhvers konar þjónustustörf eða sem aðstoðarmaður í iðngreininni. Þannig er því farið í Danmörku. Á Íslandi er sveinspróf í greininni hins vegar forsenda starfsréttinda. Einnig er mikilvægt að atvinnulífið sé tilbúið að greiða götur nemenda.

Á sama hátt væri hægt að atvinnutengja bóknám í menntaskóla. Segjum sem svo að nemandi hyggist stefna á jarðfræði í framtíðinni. Hvers vegna ekki að leyfa honum að vinna í því umhverfi í vikutíma eða svo? Réttast væri að hafa starfskynningar bæði í bóklegum og verklegum fögum, t.d. á fyrsta og þriðja ári framhaldsskóla. Með þeim myndast hvati til þess að stunda nám í tiltekinni grein.

Fordómar gagnvart verklegu námi eru miklir á Íslandi. En í verklegum greinum þarf mikið hugvit og ábyrgð, afrakstur þarf að vera sýnilegur og háður gæðum og gagnrýni. Iðnaðarmaðurinn stendur og fellur með sínu hug- og handverki. Hann er fulltrúi iðngreinarinnar í öllu sem hann tekur sér fyrir hendur.

Ekki hefur mikið borið á hver staðan er í menntunarmálum iðnnema. Ef eitthvað er hefur orðið fækkun í greinunum, nemendur sækja minna og minna í þær. Ástæðan er kannski sú að menntakerfið og atvinnulífið geta ekki komið sér saman um hvert stefna eigi, eða hafa lítinn skiling hvort á öðru.

Það er eitthvað að landi þar sem iðnmenntun er á niðurleið. Við töpum gífurlegri þekkingu, sem er undirstaða þess að við getum byggt þjóðfélag. Þar má nefna allt sem snýr að byggingariðnaði og matvælaiðnaði, þ.e.a.s. að grunnþörfum manneskjunnar.

Í starfsgreinaráðum iðngreinanna sitja aðilar úr atvinnulífinu, auk eins fulltrúa úr menntamálaráðuneytinu. Atvinnulífið krafðist þess að hafa meiri áhrif á uppbyggingu menntunar í iðngreinunum. Þess vegna voru starfsgreinaráðin stofnuð. Hvers vegna er árangurinn ekki meiri? Eitt stærsta og brýnasta verkefni menntamálaráðuneytisins og atvinnulífsins er að takast á við þessi vandamál.

Emil Hjörvar Petersen skrifar um menntamál

Höfundur er háskólanemi og í stjórn UVG.