BREYTINGAR á raforkulögunum eru aðallega tilkomnar vegna tilskipunar Evrópusambandsins um innri markað raforku, sem varð hluti af EES-samningnum með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 26. nóvember 1999.

BREYTINGAR á raforkulögunum eru aðallega tilkomnar vegna tilskipunar Evrópusambandsins um innri markað raforku, sem varð hluti af EES-samningnum með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 26. nóvember 1999. Meginmarkmið tilskipunarinnar var að tryggja öryggi í afhendingu orkunnar og auka samkeppni í framleiðslu. Tilskipunin gerir kröfu um jafnrétti til vinnslu og sölu á raforku þannig að lagalegar hindranir standi ekki í vegi fyrir samkeppni á þeim sviðum. Áður en raforkulögin tóku gildi á síðasta ári ákvað Alþingi um vinnsluleyfi orkufyrirtækja og iðnaðarráðherra ákvað röð virkjanaframkvæmda. Í tilskipuninni er tæmandi upptalning á þeim skilyrðum sem hægt er að setja fyrir veitingu vinnsluleyfis og eiga þau skilyrði að vera gegnsæ og hlutlaus.

Í raforkulögunum er miðað við að í stað Alþingis sé það verk iðnaðarráðherra hverju sinni að veita orkufyrirtæki vinnsluleyfi og þarf sú ákvörðun að byggjast á skilyrðum í tilskipun ESB. Áður var t.d. Landsvirkjun skylt að framleiða næga raforku til að anna allri eftirspurn í landinu en með breytingu á lögunum nú fellur þessi skylda niður og samkeppni tekin upp.

Strax þegar raforkulagafrumvarpið kom fyrst fram var það gagnrýnt af minnihluta iðnaðarnefndar að taka þessa tilskipun upp hér á landi. Í nefndaráliti minnihlutans sagði m.a. að á Íslandi ríktu allt aðrar aðstæður en á meginlandi Evrópu. Ríkisstjórnin hefði átt að sækja um undanþágu frá tilskipuninni á þeirri forsendu að Ísland væri sjálfstætt og einangrað raforkukerfi. Þá benti Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri-grænna, á það í umræðum á Alþingi á haustdögum 2002 að þrjú ríki hefðu fengið eða hefðu farið fram á undanþágu frá tilskipuninni. Iðnaðarráðherra svaraði því til í sömu þingumræðu að framkvæmdastjórn ESB hefði gefið þau svör á sínum tíma að undanþágur frá tilskipun varðandi vinnslu á raforku hefðu ekki komið til greina, ekki einu sinni fyrir lítil eða einangruð raforkukerfi. Því hefði ekki verið unnt að fá undanþágu frá tilskipuninni í heild sinni.