— Morgunblaðið/Brynjar Gauti
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Frumvörp um stofnun flutningsfyrirtækis raforku og breytt lög vegna flutnings og dreifingar hafa verið samþykkt í þingflokki Framsóknarflokksins en eru enn til umræðu í Sjálfstæðisflokknum. Björn Jóhann Björnsson kynnti sér frumvörpin.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur frumvarp um breytt raforkulög mætt ákveðinni andstöðu meðal nokkurra þingmanna Sjálfstæðisflokksins, þar sem m.a. hefur verið gagnrýnt að tilskipun Evrópusambandsins um innri markað raforku hafi yfirleitt verið tekin upp hér á landi og undanþága ekki fengist. Þingflokkur Framsóknarflokksins afgreiddi frumvörpin sl. mánudag og fyrirfram var reiknað með að hið sama gerðist í gær á þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins, líkt og haft var eftir Einari K. Guðfinnssyni þingflokksformanni í blaðinu í gær. En að sögn Sigríðar Önnu Þórðardóttur, varaformanns þingflokksins, sem stýrði fundinum í fjarveru Einars, var ákveðið að fjalla nánar um frumvörpin og taka þau fyrir á næsta fundi eftir helgi. Sagði Sigríður að hér væri um stórt mál að ræða sem þyrfti vandaða og mikla yfirlegu. Ekkert væri óeðlilegt við það að þingflokkurinn tæki sér lengri frest til umfjöllunar. Að öðru leyti vildi hún ekki tjá sig um afstöðu þingflokksins.

Frumvörpin byggjast á tillögum meirihluta 19 manna nefndarinnar svonefndu, sem iðnaðarráðherra skipaði til að fjalla um fyrirkomulag flutnings og dreifingar á raforku hér á landi með tilkomu nýrra raforkulaga. Var nefndinni einnig ætlað að móta tillögur um með hvaða hætti mætti jafna kostnað vegna flutnings og dreifingar orkunnar. Var lögunum breytt vegna tilskipunar Evrópusambandsins um innri markað raforku í Evrópu og aðskilnað einstakra rekstrarþátta þannig að samkeppni yrði í framleiðslu og sölu en flutningur og dreifing orkunnar yrðu í sérleyfisrekstri. Verði frumvörpin samþykkt á Alþingi taka breytt lög gildi um næstu áramót.

Sama verð hjá öllum

Helstu efnisatriði frumvarpsins um breytt raforkulög eru m.a. þau að flutningskerfið nái til þeirra háspennulína og tengivirkja sem nú eru á 66 kílóvatta (kV) spennu eða meiri. Verður raforkan frá flutningskerfinu afhent til dreifiveitna á 55 stöðum um allt land. Ekki er gert ráð fyrir að flutningskerfið nái inn fyrir mörk þéttbýlis. Þannig er lagt til í frumvarpinu að flutningslínur sem liggja að veitukerfi Vestmannaeyja, sem er reyndar í eigu Hitaveitu Suðurnesja, veitukerfi Rafveitu Reyðarfjarðar og Orkuveitu Húsavíkur tilheyri flutningskerfinu.

Við gildistöku laganna þarf að stofna hlutafélag, Landsnet hf., sem verður í eigu ríkisins til að byrja með. Fjallað er um Landsnetið í sérstöku frumvarpi sem eins og fyrr segir er lagt fram samhliða frumvarpinu um breytt raforkulög. Er þetta gert til að tryggja að til sé aðili þegar eignir, sem leggjast til flutningskerfisins, eru metnar og einnig til að annast rekstur flutningsvirkja þar til endanlegt mat liggur fyrir. Þegar matið liggur fyrir munu þeir sem leggja eignir til Landsnets taka við rekstri þess, segir í greinargerð með frumvarpi iðnaðarráðherra. Ef ekki næst samkomulag um verðmat flutningsvirkja, þ.e. raflína, geta eigendur þeirra vísað matinu til lögskipaðrar matsnefndar.

Samkvæmt frumvarpinu er gerð tillaga um sama gjald til flutningsfyrirtækisins (Landsnets) fyrir úttekt á raforku frá öllum afhendingarstöðum. Eiga allar virkjanir sem selja raforku á markaði að greiða til Landsnets í samræmi við selda orku, án tillits til stærðar. Í stað þess að iðnaðarráðherra ákvarði gjaldskrársvæði dreifiveitna verður lögbundin sú meginregla að hver dreifiveita hafi eina gjaldskrá. Þó verður heimilt að sækja sérstaklega um gjaldskrá fyrir dreifbýli og þarf viðkomandi dreifiveita að sýna fram á hærri kostnað við dreifingu raforku í dreifbýli. Samkvæmt frumvarpinu verður Orkustofnun falið að leggja mat á þörf fyrir sérstaka gjaldskrá í dreifbýli. Eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær er reiknað með að niðurgreiða dreifingarkostnaðinn á helstu dreifbýlissvæðum og taka þær fjárhæðir af fjárlögum hvers árs, um 230 milljónir króna að því er talið er. Þarf sérstakt lagafrumvarp til að koma þeim jöfnunargreiðslum á. Er einkum um að ræða dreifbýli á Vestfjörðum og veitusvæðum RARIK. Miðað er við að íbúar á dreifbýlissvæðum þessara veitna greiði ekki hærra raforkuverð en íbúar í þéttbýli greiða hæst. Þannig greiði íbúar á Gjögri sama orkuverð og Garðbæingar, svo dæmi sé tekið.

Mesta hækkun sögð 2,5%

Nokkur umræða hefur verið um áhrif breyttra raforkulaga á orkuverð til notenda og talið að þar skipti máli við hve mikla arðsemi sé miðað. Í frumvarpinu segir að miða eigi við helming af arðsemi markaðsávöxtunar óverðtryggðra ríkisskuldabréfa til fimm ára, en ávöxtun slíkra bréfa í dag er tæp 7%. Samkvæmt þessu miðar frumvarpið við 3 til 3,5% arðsemi, sem mun síðan hækka á fimm ára tímabili. Á þeim tíma er stefnt að því að orkufyrirtækin hafi sjálf skapað sér svigrúm til hagræðingar í rekstri. Er þeim ætlað að njóta hluta þeirrar hagræðingar sem þau ná innan þess tekjuramma sem þeim er settur, án þess að það leiði til hækkunar á gjaldi til flutnings og dreifingar raforku, segir í greinargerð frumvarpsins.

Út frá þessum forsendum hefur Orkustofnun kannað áhrif nýs fyrirkomulags á raforkuverðið og komist að þeirri niðurstöðu að það geti í mesta lagi hækkað um 2,5% miðað við almennan taxta, en ekki 20-30% eins og orkufyrirtækin hafa sum hver haldið fram. Hækkunin verði mest hjá Hitaveitu Suðurnesja, um 1% hækkun hjá meðalfjölskyldu á veitusvæði Orkuveitu Reykjavíkur, um 1,5% hækkun hjá Orkubúi Vestfjarða og Norðurorku en allt að 2,6% lækkun á veitusvæðum Rarik.

Í greinargerð Orkustofnunar með tillögum 19 manna nefndar er þess freistað að skipta niður kostnaði orkufyrirtækjanna við framleiðslu, sölu og dreifingu á rafmagninu, miðað við hverja framleidda kílóvattstund. Er þar byggt á upplýsingum á gögnum orkufyrirtækja frá árinu 2002 en ýmsir fyrirvarar gerðir við útreikninga. Þannig giskar Orkustofnun á sjálft orkuverðið, þ.e. framleiðslukostnaðinn, og hefur hann 2,50 kr. á kílóvattstund (kr/kWst) á öllum veitusvæðum þar sem verðið á að vera óháð búsetu kaupenda. Flutningskostnaðurinn er yfirleitt rúmlega 1 kr/kWst, samanber meðfylgjandi töflu, en dreifingarkostnaður mismunandi eftir svæðum. Mestur er hann í dreifbýlinu hjá RARIK og Orkubúi Vestfjarða og mörk á niðurgreiðslu kostnaðar miðast við rúmar 7 kr/kWst.

14 hlynntir af 19

Svo fór að 14 nefndarmenn af 19 stóðu að áliti meirihlutans, þegar tillögur voru lagðar fyrir iðnaðarráðherra. Þar af voru fimm með sérstakar bókanir og þeirra á meðal Guðmundur Þóroddsson, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, sem skilaði ekki séráliti eins og útlit var fyrir að hann gerði sökum andstöðu við tillögurnar. Höfðu hann og Júlíus Jónsson, forstjóri Hitaveitu Suðurnesja, haft uppi harða gagnrýni innan nefndarinnar og svo fór að Júlíus var meðal þeirra sem skiluðu séráliti, auk fulltrúa vinstri-grænna, ASÍ og BSRB. Einn nefndarmaður sat hjá, Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarfulltrúi, sem lét bóka að hún lýsti efasemdum um allar tillögur sem leiddu til hækkunar raforkuverðs á höfuðborgarsvæðinu. Steinunn var einnig með sameiginlega bókun með Óla Jóni Gunnarssyni, bæjarstjóra í Stykkishólmi, um að kostnaður vegna niðurgreiðslu á raforkudreifingu yrði greiddur úr ríkissjóði. Óli Jón ritaði hins vegar undir álit meirihlutans.

Í bókun Guðmundar segir m.a. að það sé mikilvægt að fjárfestingar sem studdar hafa verið af sameiginlegum sjóðum landsmanna verði ekki metnar á fullu endurstofnverði inn í Landsnetið og litlar raforkulínur verði skoðaðar sérstaklega. Það sé einnig mikilvægt við verðlagningu flutnings að líta til þess hve afhendingarstaðirnir séu misstórir og að þeir staðir sem séu hagstæðir kerfinu fái að njóta þess. Segir Guðmundur að iðnaðarráðhera hafi fullvissað sig um að fullur skilningur sé á þessum sjónarmiðum og að vilji sé til að koma til móts við þau.

bjb@mbl.is