FRAMFARAFÉLAG Flateyjar á Breiðafirði er að skoða möguleika á því hvernig megi flytja ferskt vatn til eyjarinnar.

FRAMFARAFÉLAG Flateyjar á Breiðafirði er að skoða möguleika á því hvernig megi flytja ferskt vatn til eyjarinnar. Er til skoðunar að leggja plastlögn 20 km leið frá Skálmarnesi í Reykhólahreppi, en slík framkvæmd er talin myndi kosta um 5-6 milljónir og gefa tvö tonn af vatni á klukkustund.

Kristinn Nikulásson hefur skoðað lagningu vatnsleiðslu til eyjarinnar. Hann vill leggja leiðslu í land eða 20 km. Virkja á sem rennur af fjallinu, grafa brunn við ána og láta fallhæðina knýja vatnið út í Flatey. Hann segir vatnsskort vera vandamál í Flatey. "Í dag er safnað vatni úr brunnum og hefur verið reynt að dæla í tanka en vatnið þrýtur yfir sumarið og vandræðaástand skapast. Þegar flest fólk er í eynni eru þurrkarnir mestir. Það hefur verið þannig að það hefur orðið að flytja vatn úr Stykkishólmi til að anna þessum toppum."