HARALDUR Freyr Guðmundsson, varnarmaður í úrvalsdeildarliði Keflavíkur í knattspyrnu, hefur æft með rússneska liðinu Shinnik Yaroslavl undanfarna daga.
HARALDUR Freyr Guðmundsson, varnarmaður í úrvalsdeildarliði Keflavíkur í knattspyrnu, hefur æft með rússneska liðinu Shinnik Yaroslavl undanfarna daga. Umboðsmaður hafði samband við Arnór Guðjohnsen og fyrir hans atbeina hélt Haraldur til Hollands í fyrradag en Rússarnir hafa dvalið þar í æfingabúðum.

Haraldur lék æfingaleik með Rússunum gegn belgíska liðinu Genk í fyrrakvöld og í gær átti hann fund með forráðamönnum liðsins. Shinnik varð í fimmta sæti á síðustu leiktíð en með liðinu leikur Hvít-Rússinn Sergei Shtanyuk sem var áður í herbúðum Stoke.

"Þeir sögðust vera ánægðir með mig en vildu fá að skoða mig betur í Rússlandi. Ég veit ekki hvað ég geri en ég á eftir að ræða málin betur við minn umboðsmann," sagði Haraldur við Morgunblaðið í gær.

Boðið til æfinga hjá Waalwijk

Rússarnir halda til síns heima í dag en Haraldur verður í Hollandi fram til sunnudags því forráðamenn hollenska 1. deildarliðsins Waalwijk, liðsins sem Jóhannes Karl Guðjónsson lék með, buðu Haraldi að æfa með liðinu til reynslu.

Haraldur, sem er 23 ára, hefur verið fastamaður í liði Keflvíkinga, og á að baki átta leiki með U-21 árs landsliðinu.