Hjálmtýr Heiðdal
Hjálmtýr Heiðdal
Þetta er stór pöntun og enginn í sjónmáli sem vill afgreiða hana.

NÝLEGA ákváðu yfirmenn Ríkisútvarpsins að stórauka framlög til kaupa á íþróttaefni fyrir sjónvarp og jafnframt skrúfa tímabundið fyrir kaup á innlendum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum frá sjálfstæðum framleiðendum. Þetta er stórfurðuleg uppákoma hjá stofnun sem á takmarkaðan tilverurétt nema hún sinni því hlutverki af krafti sem skýrt er skilgreint í lögum:

(RÚV) "skal veita almenna fræðslu og gera sjálfstæða dagskrárþætti er snerta Ísland eða Íslendinga sérstaklega [...] skal leggja rækt við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð (...) flytja fjölbreytt skemmtiefni við hæfi fólks á öllum aldri (...) útvarpsefni skal miða við fjölbreytni íslensk þjóðlífs

Á þetta ekki að vera kjarninn í sjónvarpsútsendingum þessarar stofnunar? Er einhver möguleiki til þess að rækja þetta hlutverk nema með öflugu samstarfi við kvikmyndagerðarmenn? Spjallþættir og annað sjónvarpsefni sem RÚV framleiðir í stúdíói er góðra gjalda vert, en slíkt dagskrárefni nær aldrei að sýna fjölbreytni íslensks þjóðlífs. Fólkið sem birtist í spjallþáttunum er sama fólkið sem er dregið aftur og aftur fram í sviðsljósið - það er Séð og heyrt hundrað sinnum og því hlýtur sjálfu brátt að fara að leiðast þetta síendurtekna og fremur yfirborðslega skjall og fikt við einkahagi í hjá þjóð sem er ekki 300 þúsund sálir. Sjálfstæðir kvikmyndagerðarmenn fara um víðan völl og kafa dýpra í þjóðarsálina og sögu þjóðarinnar en gert er í léttu spjalli stúdíóþáttanna. Sjónvarpið þarf fleiri augu til þess að skoða þjóðlífið - og þessi augu eru sjálfstæðir kvikmyndagerðarmenn. Þeir hafa sýnt og sannað að þeir eru nauðsynlegir fyrir íslenskt sjónvarp sem reynir að standa undir nafni. Þess vegna er það stórfurðulegt og jafnframt lýsandi um afstöðu stjórnenda RÚV að stofnunin hefur sárasjaldan samband við sjálfstæð kvikmyndagerðarfyrirtæki að fyrra bragði. Kvikmyndagerðarmaður sem einn góðan veðurdag fengi símhringingu frá Ríksissjónvarpinu þar sem beðið væri um hugmyndir eða tilboð í verk þyrfti trúlega að fá áfallahjálp.

Stjórnmálaafl sem segir eitt en gerir annað

Allt er þetta mál skrýtið í ljósi þess að það stjórnmálaafl sem mestu hefur ráðið um gang stofnunarinnar undanfarin ár hefur það að yfirlýstu markmiði að stuðla að vexti sjálfstæðra fyrirtækja á öllum sviðum - ekki síst á þeim sviðum þar sem ríkisvaldið hefur ráðið miklu.

Eftirfarandi sjónarmið sem birtust í leiðara Morgunblaðsins 11. sept. 2003 eru að mínu mati kjarni þess sem segja þarf um þessar ákvarðanir yfirmanna Ríkisútvarpsins: "Hvað mætti gera í innlendri dagskrárgerð (...) fyrir þá peninga, sem RÚV hyggst verja til að senda út frá knattspyrnuleikjum í Englandi (...) Einkastöðvar hafa sinnt því hlutverki með prýði um árabil að færa fólki ensku knattspyrnuna heim í stofu."

Sjónvarp og menningarstefna

Ég tel að eitt helsta vandamál íslenskrar kvikmyndagerðar kristallist í þeirri staðreynd að ekki er til nein raunveruleg opinber menningarstefna sem skilgreinir skýrt og greinilega þátt íslensks sjónvarps í íslenskri kvikmynda- og þjóðmenningu. Kvikmyndaaðsókn Íslendinga lítur vel út í skýrslum. En bíósóknin byggist fyrst og fremst á ungu fólki sem horfir á ofurauglýstar ofurmyndir um ofurmenni og ofurhuga frá ofurveldinu. Mesta eftirspurnin eftir kvikmynduðu íslensku efni er hjá fólkinu sem situr heima og horfir á sjónvarpið. Ódýrir þættir um íslenskt fólk og íslenskan veruleika ná 20-40% áhorfi án sérstaks auglýsingaátaks. Og þetta eru þakklátir neytendur, meira að segja frekar hógværir. Oft dæla stöðvarnar lélegu dagskrárefni yfir mannskapinn en tekst þó ekki að drepa áhugann. Aftur setjast menn við skjáinn sinn og horfa á innlent. Þessar staðreyndir varpa ljósi á mikilvægan hlut sjónvarpsins á sviði menningaruppeldis, menningarstefnu og kvikmyndagerðar.

Peningar og þjóðmenning

Menningarhlutverk Ríkissjónvarpsins er ekki hægt að rækja nema með nýrri stefnu sem tekur mið af þeim markmiðum sem alltaf er verið að setja fram. Nýjasta dæmið er stjórnarsáttmáli núverandi ríkisstjórnar: "Að standa vörð um íslenska tungu, sögu og þjóðmenningu. Sköpuð verði frekari vaxtarskilyrði fyrir blómlegt menningarlíf." Hvernig á að framfylgja þessari stefnu ef ekki eru lagðir fram nægir peningar til þess að nýta öflugasta miðilinn til að verja og auðga þjóðmenninguna - peningar til að skapa blómlegt menningarlíf - peningar sem sjónvarpsstöðvar geta lagt til framleiðslu á fjölbreyttri kvikmyndaflóru.

Í dag fer mest öll orka kvikmyndagerðarmanna í tilraunir til að fjármagna verkefni, tilraunir sem sjaldan takast þannig að eðlilega sé staðið að framleiðslu myndanna. Kvikmyndageirinn situr uppi með mikið af þekkingu, hæfileikum, bjartsýni, búnaði og geysilegum vilja til verka - en fjárhagur greinarinnar er í rúst. Það sem fyrst og fremst skortir er fé hjá þeim aðila sem er aðalmarkaðurinn fyrir verk okkar og það er einnig sá aðili sem best er til þess fallinn að framfylgja markmiðum um eflingu þjóðmenningar okkar. Nærtækast fyrir stjórnvöld er því að stórefla getu Sjónvarpsins til þess að kaupa og sýna íslenskar kvikmyndir af öllu tagi.

Þetta er stór pöntun og enginn í sjónmáli sem vill afgreiða hana. Meðan svo er eiga ráðamenn að hætta að tala og skrifa um mikilvægi menningar og að þjóðin eigi að þekkja sinn arf og allt það.

Þá er alveg nóg fyrir þá að fara í réttir einu sinni á ári, hlusta á söng karlanna í íslensku lopapeysunum (hvað er íslenskara en hífaðir söngmenn við réttarvegg?) Gott væri ef einhver væri nærstaddur með myndavél og hljóðnema.

Hjálmtýr Heiðdal skrifar um kaup Sjónvarpsins á innlendu efni

Höfundur er kvikmyndagerðarmaður.