Svafa Grönfeldt
Svafa Grönfeldt
ÁRANGURSSTJÓRNUN hefur gefið góða raun í opinberum stofnunum þar sem slíkir starfshættir hafa verið teknir upp og skilað sér í betri rekstri og þjónustu stofnana.
ÁRANGURSSTJÓRNUN hefur gefið góða raun í opinberum stofnunum þar sem slíkir starfshættir hafa verið teknir upp og skilað sér í betri rekstri og þjónustu stofnana. Svafa Grönfeldt, lektor í viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands og framkvæmdastjóri IMG-Deloitte, segir að ávinningurinn geti staðið og fallið með stjórnendum þeirra stofnana þar sem árangursstjórnun er tekin upp.

Svafa er ein fyrirlesara á námskeiði sem Endurmenntunarstofnun HÍ stendur fyrir í næstu viku fyrir stjórnendur opinberra stofnana um árangursstjórnun í opinberum rekstri.

Fjölmargar stofnanir hafa á undanförnum árum tekið upp árangursstjórnun og segir Svafa árangurinn góðan, þó ómögulegt sé að segja fyrir um heildaráhrifin þar sem það taki langan tíma fyrir þau að koma fram. Rúmlega helmingur stofnana á Íslandi hafi undirritað árangurssamninga við sín ráðuneyti og um 37% ríkisstofnanna hafi gert langtímaáætlun um markvissa árangursstjórnun.

"Þetta hefur skilað mjög góðum árangri, en er hins vegar langt ferli og krefst mikils úthalds. Ríkið hefur verið að skoða þetta hjá sér og telur að helsti ávinningurinn sé fyrst og fremst betri skilningur milli ráðuneyta og stofnana, auk þess sem rekstur og þjónusta stofnananna hefur í mörgum tilvikum batnað," segir hún.

Árangursstjórnun engin skyndilausn

Þegar árangursstjórnun er beitt er stefna og tilgangur stofnunarinnar, eða fyrirtækisins, sem um ræðir skilgreind sem og lykilárangursþættir, þ.e. hvaða þáttum viðkomandi stofnun þarf að sinna vel. Mælikvarðar til að mæla árangur þessara þátta eru síðan notaðir svo stjórnendur geti fylgst reglulega með því hvernig starfsemin gengur í þessum tilteknu málaflokkum.

"Þetta er mjög mikil breyting á rekstri fyrirtækja eða stofnana. Með því að innleiða árangursmælikvarða er hægt að fylgjast með þróun og árangri í rekstri og þjónustu. Það getur verið mjög vandmeðfarið að finna réttu mælikvarðana, þannig að menn séu ekki bara að mæla það sem er þægilegt að mæla og séu örugglega að mæla það sem skiptir máli fyrir notendur þjónustunnar og skattgreiðendur," segir Svafa.

Hún segir árangursstjórnun enga skyndilausn. Það taki stofnanir tíma að afla sér þekkingar og að taka upp þessi nýju vinnubrögð. "Þegar stjórnendur í opinbera geiranum taka upp þessar nýju aðferðir eru ábyrgð þeirra og forystuhlutverk mjög mikilvæg. Innleiðing svona breytinga stendur í raun og fellur með forystunni innan hvers fyrirtækis og stofnunar. Að þeir tileinki sér þessi nýju vinnubrögð, hafi skýra sýn á það af hverju þeir eru að gera þetta og hvernig þeir ætla að innleiða árangursstjórnun. Svo er það þeirra að halda starfsmönnum sínum áhugasömum og hvetja þá til að halda áfram. Þetta er dæmi um eina erfiðustu breytingu á stjórnunarferli sem fyrirtæki ganga í gegnum," segir Svafa.

Á námskeiðinu, sem haldið verður dagana 9. og 10. mars, verður einmitt fjallað um árangursstjórnun út frá sjónarhóli stjórnandans. Ásamt Endurmenntun standa IMG-Deloitte og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála fyrir námskeiðinu. Þar verður lögð áhersla á hlutverk stjórnandans, hvatningu starfsmanna og val á árangursmælikvörðum, auk þess sem kynnt verður ný handbók fjármálaráðuneytisins um innleiðingu árangursstjórnunar.

Aðrir fyrirlesarar eru Ágúst Hrafnkelsson, forstöðumaður innri endurskoðunardeildar Reykjavíkurborgar, Kristín Kalmansdóttir, verkefnissstjóri vegna innleiðingar stefnumiðaðs árangursmats (BSC) hjá Reykjavíkurborg, Arnar Þór Másson, stjórnmálafræðingur hjá Fjárreiðu- og eignaskrifstofu fjármálaráðuneytisins og Anna Margrét Jóhannesdóttir, stjórnsýslufræðingur hjá IMG Deloitte.