Tónleikarnir undirbúnir: Þorvaldur Már Guðmundsson gítarleikari, Eiríkur Árni Sigtryggsson tónskáld og Dagný Marinósdóttir flautuleikari á æfingu fyrir tónleikana sem verða í Duushúsum í kvöld.
Tónleikarnir undirbúnir: Þorvaldur Már Guðmundsson gítarleikari, Eiríkur Árni Sigtryggsson tónskáld og Dagný Marinósdóttir flautuleikari á æfingu fyrir tónleikana sem verða í Duushúsum í kvöld.
Keflavík | "Ég hugsaði mér að ég væri að ganga í garði og horfa á blómin.
Keflavík | "Ég hugsaði mér að ég væri að ganga í garði og horfa á blómin. Ég nota stundum þannig leiðsögn í huganum þegar ég er að semja," segir Eiríkur Árni Sigtryggsson, tónskáld í Keflavík, en verk hans, sem að sjálfsögðu heitir Blómabeð, verður frumflutt á tónleikum í Listasafni Reykjanesbæjar í Duushúsum í kvöld.

Dagný Marinósdóttir flautuleikari og Þorvaldur Már Guðmundsson gítarleikari halda tónleikana í Duushúsum í kvöld, klukkan 20.

Á efnisskrá eru verk eftir Bartók, Fauré, Albeniz, Ibert, Barrios og Pujol auk Blómabeðs Eiríks Árna. Dagný og Þorvaldur kenna við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar eins og Eiríkur Árni Sigtryggsson.

Eiríkur skrifaði þetta verk sérstaklega fyrir samkennara sína. "Þetta er alveg nýtt verk sem ég gerði af þessu tilefni. Þau gera þetta vel og ég er þeim afar þakklátur fyrir gera þessa fallegu tónlist úr punktunum mínum," segir tónskáldið. Hann segir að það sé krefjandi að leika verkið en tekur fram að það eigi að vera auðvelt að hlusta á það. Þótt Blómabeðið sé nútímaverk séu stefnin í rómantískum anda - og blómleg.

Eiríkur Árni segir að sér gangi þokkalega að koma verkum sínum á framfæri. Það hái sér þó nokkuð að búa í Keflavík. Þar sé hann ekki í nógu nánu sambandi við félaga sína og vini í höfuðborginni þar sem allt gerist, ekki síst í nútímatónlistinni. Hann segist því eiga töluvert af verkum í skúffunni.

Hann reynir að fá upptökur af þeim verkum sem flutt eru og segist vera að safna á disk. Takmarkið sé að koma út diski með eigin tónlist en það taki sinn tíma með þeim hraða sem verið hafi.

Eiríkur Árni fór fertugur til Bandaríkjanna til að læra tónsmíðar en hafði þá verið virkur í myndlistinni um árabil. Hann viðurkennir að ákveðin togstreita sé milli myndlistarinnar og tónlistarinnar og að myndlistin hafi vinninginn eins og er enda hafi hún tuttugu ára forskot á tónsmíðarnar í lífi hans. Segist hann til dæmis vera duglegur við að mála um þessar mundir.

Dagný Marinósdóttir útskrifaðist vorið 2002 frá Tónlistarskólanum í Reykjavík með blásarakennara- og burtfararpróf í flautuleik. Aðalkennarar hennar þar voru Bernharður Wilkinson og Hallfríður Ólafsdóttir. Dagný hefur sótt fjölda námskeiða og einkatíma erlendis m.a. hjá William Bennett, Peter Lloyd, Wissam Boustany og Toke Lund Christiansen. Dagný hefur komið fram á ýmsum tónleikum innanlands sem utan.

Þorvaldur Már hóf nám í klassískum gítarleik hjá Leifi Vilhelm Baldurssyni í ársbyrjun 1989. Hann lauk 6. stigi í í gítarleik frá Tónlistarskóla Húsavíkur vorið 1994. Árið 2000 lauk hann 8. stigi og kennaraprófi frá Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar en aðalkennari hans þar var Símon H. Ívarsson. Veturinn 2000-2001 stundaði hann framhaldsnám í klassískum gítarleik í Barcelona hjá Arnaldi Arnarsyni og einnig stundaði hann nám í flamenco-gítarleik hjá Manuel Granados. Þorvaldur hefur einnig sótt ýmis masterklassnámskeið, t.d. hjá David Russel, Göran Sölsher og Manuel Barrueco.