Frumsýning á föstudaginn: Atriði úr leikritinu Lú-barinn, vongóður trúbador kemur á barinn í leit að góðum stað til að spila tónlistina sína.
Frumsýning á föstudaginn: Atriði úr leikritinu Lú-barinn, vongóður trúbador kemur á barinn í leit að góðum stað til að spila tónlistina sína. — Morgunblaðið/Sverrir
Mosfellsbær | Leikfélag Mosfellssveitar hefur nú gert samning við Mosfellsbæ um samstarf á leikárinu, og mun leikfélagið m.a. standa fyrir sumarskóla fyrir börn, opnu leikhúsi á góðviðrisdögum auk þess að efla menningarstarf á hátíðisdögum.
Mosfellsbær | Leikfélag Mosfellssveitar hefur nú gert samning við Mosfellsbæ um samstarf á leikárinu, og mun leikfélagið m.a. standa fyrir sumarskóla fyrir börn, opnu leikhúsi á góðviðrisdögum auk þess að efla menningarstarf á hátíðisdögum.

"Við sjáum um ákveðinn þátt í menningar- og skemmtanastarfi bæjarins, til dæmis við vígslu á jólatrénu, á þrettándanum, 17. júní og á afmælisdegi bæjarins. Þetta sér leikfélagið um, aukinheldur sem við rekum skóla sem heitir Leikgleði fyrir börn á sumrin. Fyrir þetta fáum við ákveðna upphæð á ári frá bænum" segir Pétur R. Pétursson, formaður Leikfélags Mosfellssveitar.

Mosfellsbær styrkir leikfélagið um 1,5 milljónir króna á ári næstu tvö árin. Leikfélagið er eingöngu skipað áhugamönnum og hefur engan starfsmann á kaupi. Pétur segir þetta fjármagn tryggja að hægt sé að setja upp að lágmarki tvær veglegar sýningar á ári, sem sé meira en mörg önnur leikhús geti gert.

Leikið fyrir gesti og gangandi

Meðal þess sem leikfélagið hefur á prjónunum er að setja upp svokallað leikhúskaffi utanhúss á góðviðrisdögum í sumar. Þá verður torgið utan við leikhúsið málað eins og aldingarður, sett upp tré og selt kaffi og meðlæti. Svo verða sett upp leikatriði fyrir gesti og gangandi. "Þetta verður ekki gert nema það sé gott veður og góð spá," segir Pétur kíminn, aðspurður um hvort það sé raunsætt að gera þetta á Íslandi.

Leikfélagið frumsýnir nú á föstudag leikritið Lú-barinn. Pétur segir leikritið skemmtifarsa sem gerist á ný-uppgerðum Lú-barnum, síðasta daginn áður en staðurinn verður opnaður aftur. "Þarna koma ýmsir gestir, bæði gamlir fastagestir og aðrir, og það er svona "monkeybuisness" í kringum þetta allt saman og heljar grín sem verður úr þessu," segir Pétur.

Á eftir sýningunni getur fólk kynnst Lú-barnum af eigin raun því barinn verður opinn eftir sýningu, og hljómsveit barsins, sem spilar undir á sýningunni, heldur uppi fjörinu.