Alistair Cooke
Alistair Cooke
SVO tryggir hafa gamlir hlustendur hans sumir verið að þeir hafa ekki misst úr einn einasta þátt af Bréfi frá Ameríku. En nú er Bretinn Alistair Cooke orðinn 95 ára gamall og heilsan að bila, hann flytur sinn síðasta þátt á föstudaginn kemur.

SVO tryggir hafa gamlir hlustendur hans sumir verið að þeir hafa ekki misst úr einn einasta þátt af Bréfi frá Ameríku. En nú er Bretinn Alistair Cooke orðinn 95 ára gamall og heilsan að bila, hann flytur sinn síðasta þátt á föstudaginn kemur. "Í 58 ár hef ég notið þess mjög að flytja þessa þætti og vona að ég hafi miðlað einhverju af ánægjunni til hlustenda. Þeim vil ég nú þakka fyrir tryggðina - og góðar stundir," verða síðustu orð Cookes, að því er kemur fram í fréttatilkynningu frá breska ríkisútvarpinu, BBC. Sjálfur hafði hann reyndar hugsað sér að flytja tíðindin sjálfur í síðasta þættinum.

Cooke er verkamannssonur frá Blackpool en lauk námi við Cambridge, Harvard og Yale. Hann varð kvikmyndagagnrýnandi hjá BBC árið 1934 en fluttist til New York og varð bandarískur borgari árið 1941.

Fimm árum síðar bauðst hann til að flytja vikulega 15 mínútna þætti fyrir BBC um bandarísk málefni, allt milli himins og jarðar, og átti verkefnið að standa í sex vikur. En að sögn AFP-fréttastofunnar fullyrðir Cooke að yfirmenn BBC hafi "gleymt" að stöðva þáttinn!

Menn sáu hann fyrir sér í huganum, prúðmannlegan Bretann, með hljóðnemann í bókaherbergi sínu með útsýni yfir Central Park. Cooke fræddi landa sína handan hafsins og aðra um það sem efst var á baugi vestra en ekki síður bandaríska sögu og stjórnmál, lífgaði upp á frásögnina með ýmsum frumlegum athugasemdum, sagði frá mörgu kynlegu og reyndi af þolinmæði að skýra það sem var að gerast í þessu geysistóra og undarlega landi. En hann var líka á staðnum þegar dramatískir atburðir gerðust. Sem dæmi má nefna morðið á Robert Kennedy í Kaliforníu árið 1968.

Cooke var einnig höfundur að þrettán sjónvarpsþáttum um bandaríska sögu og árið 1973 ritaði hann bók um sama efni. Hún heitir einfaldlega Ameríka og varð metsölubók. Aðeins þrisvar hefur það gerst að þáttur Cookes hafi fallið niður. Síðast var það um síðustu helgi og þá heyrðu hlustendur að röddin var veik og hann var þjáður.