Við Reykjavíkurhöfn: Ekki er víst að fiskverkun og útgerð samrýmist hugmyndum Reykjavíkurborgar um blandaða íbúðabyggð við höfnina.
Við Reykjavíkurhöfn: Ekki er víst að fiskverkun og útgerð samrýmist hugmyndum Reykjavíkurborgar um blandaða íbúðabyggð við höfnina. — Morgunblaðið/Jim Smart
Reykjavíkurhöfn | Fiskverkendur og útgerðarmenn við Reykjavíkurhöfn eru sumir hverjir ekki sáttir við hugmyndir um uppbyggingu og íbúðarbyggð á svæðinu, og segir einn þeirra að enn hafi ekki verið rætt við sig, þrátt fyrir að hús fyrirtækisins virðist...
Reykjavíkurhöfn | Fiskverkendur og útgerðarmenn við Reykjavíkurhöfn eru sumir hverjir ekki sáttir við hugmyndir um uppbyggingu og íbúðarbyggð á svæðinu, og segir einn þeirra að enn hafi ekki verið rætt við sig, þrátt fyrir að hús fyrirtækisins virðist ekki inni á nýjum hugmyndum að skipulagi.

"Við erum alveg á þessum reit sem verið er að skipuleggja núna, og húsið okkar er ekki á þessum tillögum sem við erum að sjá. Það gæti þýtt það að við þurfum að fara eitthvað annað, hvort sem það verður annars staðar í Reykjavík eða eitthvað annað," segir Ásbjörn Jónsson, framkvæmdastjóri hjá Jóni Ásbjörnssyni og Fiskkaupum.

Ásbjörn segist hafa það á tilfinningunni að borgaryfirvöld vilji að fyrirtækið fari eitthvað annað. "Ég held að það sé ágætt að gera eitthvað í þessu skipulagi, en það hlýtur þá að þurfa að færa þessa fiskvinnslu og útgerð annað, annað hvort annars staðar í höfninni eða aðra höfn."

Talsverðar vangaveltur hafa verið um hvað eigi að gera á svæðinu, og óvissa um framtíðina. Ásbjörn segir að t.d. hafi starfsfólk verið óöruggt og spurt um framtíð fyrirtækisins, og ekki hafi verið ljóst hversu miklu eigi að verja í viðhald á húsi. Hann segir þó að eftir samtöl við hafnarstjóra og aðra sjái hann ekki annað en fyrirtækið fái að vera þarna einhver ár í viðbót.

Rúmast varla í blandaðri byggð

"Þetta eru bara tillögur svo það er alveg óvíst hvað verður, en maður fær engin svör," segir Ásbjörn. Hann segir starfsemi fyrirtækisins varla rúmast í blandaðri íbúðabyggð. "Maður finnur það að það er verið að þrengja að okkur hérna, slippurinn er að fara og þar er að koma íbúðarbyggð. Svo er búið að ákveða að það verði tónlistarhús og jafnvel hótel hérna hinumegin við okkur svo það er verið að þrengja að okkur úr báðum áttum. En við bíðum bara rólegir og sjáum hvað gerist."

Aðstaðan sem fyrirtækið er í núna er mjög góð, segir Ásbjörn, skipið sem Fiskkaup gerir út getur landað því sem næst beint inn í húsið. Hann segir ljóst að ekki sé hægt að finna jafngóða aðstöðu annarsstaðar, en útilokar ekki að fyrirtækið flytji milli bæjarfélaga verði þrengt að því við Reykjavíkurhöfn.

Granda ætlaður staður

Kristján Þ. Davíðsson, forstjóri Granda, segist trúa því að fyrirtækinu sé ætlaður staður þar sem það er í dag, og hann hafi fengið það staðfest hjá yfirvöldum. "Ég tel okkur alveg finna það frá borgaryfirvöldum og hafnaryfirvöldum að menn hafi áhuga á því að halda Granda í Reykjavík," segir Kristján.

"Yfirvöld hafa verið að búa til garð fyrir okkur hérna og það er verið að taka massa úr höfninni og setja hann hérna fyrir utan okkur. Svo við bæði trúum því og treystum að okkur sé ætlaður staður hérna," segir Kristján. Hann segir þó óvissara hvað verði um loðnuverksmiðjuna til lengri tíma litið.

Ekki er víst að starfsemin samrýmist blandaðri íbúðarbyggð, en staðsetning fyrirtækisins geri það að verkum að það skipti ekki öllu máli. Hann segir þó að blandaða byggðin sé þó kannski slæm hugmynd, og bendir á að væntanlegir íbúðarkaupendur væru sennilega ekki til í að kaupa íbúð fyrir ofan þvottastöð eða bílaverkstæði.

Kristján segir að það sem valdi honum hvað mestum áhyggjum við tillögurnar er að þar sé ekki sé víst að umferðaræðar til og frá fyrirtækinu séu ekki gerðar fyrir þá umferð sem þar þurfi að fara um, og lokist í versta lagi. Hann segist þó í heildina bjartsýnn á framtíð Granda í Reykjavíkurhöfn.